Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 16:24:16 (1112)

1997-11-11 16:24:16# 122. lþ. 22.14 fundur 85. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tannviðgerðir) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[16:24]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem ég flyt ásamt hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, Margréti Frímannsdóttur og Kristjáni Pálssyni.

Efni þessa frv. er að veita heimild í 66. gr. skattalaga til að lækka skatta viðkomandi ef hann hefur veruleg útgjöld vegna tannviðgerða. Það er ekki svo að verið sé að flytja þetta mál í fyrsta sinn, það var flutt á síðasta þingi. Reyndar var það einnig flutt á þinginu 1981 eða 1982 sem ég mun koma að síðar í máli mínu.

Það er svo, herra forseti, að á síðasta einum og hálfum áratug eða svo hafa útgjöld heimilanna vegna tannlæknaþjónustu aukist verulega. Þau hafa rúmlega þrefaldast á 15 ára tímabili og voru ekki nærri eins há eins og þegar þetta frv. kom fyrst fram hér í þinginu fyrir sennilega einum og hálfum áratug. Þjónustugjöld hafa aukist í heilbrigðiskerfinu en ég held að útgjöld heimilanna hafi hvergi aukist eins mikið vegna heilbrigðisþjónustu og vegna tannlækninga.

Í 66. gr. skattalaga eru ýmis ákvæði sem heimila skattstjórum að lækka tekjuskattsstofn ef gjaldþol skattgreiðanda skerðist verulega. Ég nefni nokkur dæmi:

,,Ef ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol manns verulega.

Ef á framfæri manns er barn sem haldið er langvinnum sjúkdómum eða er fatlað eða vangefið og veldur framfæranda verulegum útgjöldum umfram venjulegan framfærslukostnað og mótteknar bætur.

Ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn sannanlega á framfæri sínu.

Ef maður hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri.``

Fleiri ákvæði eru þarna tiltekin sem heimila skattstjóra að lækka tekjustofn ef gjaldþol skattgreiðanda skerðist verulega.

Flest heimili þekkja að útgjöld vegna tannlækninga geta orðið svo veruleg að þau geta ofboðið gjaldþoli heimilanna. Oft er um að ræða reikninga sem skipta tugum eða jafnvel hundruðum þúsunda. Í þeim tilvikum varðandi tannviðgerðir er örugglega jafnmikil ástæða til að heimila slíka lækkun á tekjuskattsstofni vegna útgjalda af tannlækningum eins og vegna ýmissa annarra atriða sem 66. gr. heimilar.

Ég nefndi að útgjöld heimilanna hafa aukist verulega vegna þjónustugjalda í heilbrigðiskerfinu. Þegar tölur eru bornar saman um útgjöld heimilanna vegna lyfja- og lækniskostnaðar, sem við ræðum oft að hafi þyngst verulega, þá kemur í ljós að útgjöld vegna tannlæknakostnaðar hafa aukist miklu meira en útgjöld vegna annars læknis- eða lyfjakostnaðar. Á 15 ára tímabili sem tilgreint er í greinargerðinni hafa útgjöld vegna lyfja- og læknishjálpar aukist um 80--90% í heild og þá erum við að tala um útgjöld heimilanna. Þegar þetta er brotið niður og útgjöld skoðuð vegna læknisþjónustu þá hafa þau aukist um 77% á þessu tímabili eða úr 401 millj. kr. í 712 millj. kr. En þegar tannlæknaþjónustan ein og sér er skoðuð hefur hún aukist úr 479 millj. í 1.667 millj. kr. eða aukist um 287% herra forseti, þ.e. útgjöld heimilanna á 15 ára tímabili vegna tannlæknakostnaðar. Það á sér skýringar í m.a. ýmsum lagabreytingum sem hafa dregið úr þátttöku almannatrygginga í tannlæknakostnaði. Ég minni líka á könnun landlæknis í þessu sambandi. Hjá landlækni kom fram í könnun sem gerð var að yfir 50% þeirra sem spurðir voru og voru með tekjur undir 130 þús. kr. sögðu að þeir hafi frestað að leita sér tannlæknaþjónustu. Þessi rök eru því mjög veigamikil þegar Alþingi metur hvort það eigi að bæta nýjum lið við 66. gr. tekjuskattslaga sem veiti skattaívilnun vegna verulegs tannlæknakostnaðar.

Ég vil, herra forseti, af því að það er veruleg ástæða til, rifja aðeins upp forsögu þessa frv. Ég flutti á árinu 1982 frv. sama efnis og þá hlaut þetta mál verulegar undirtektir á Alþingi sem kom m.a. fram í því að heilbr.- og trn., sem fékk málið til meðferðar og fjallaði um það, mælti með að frv. yrði samþykkt. Það kom í þeim búningi inn í þingið aftur til 2. umr. þar sem heilbr.- og trn. var samhljóða og mælti með því. En áður en átti að afgreiða málið í atkvæðagreiðslu þá kom upp þáv. heilbrrh., sem var hv. þm. Svavar Gestsson, og sagði að hann hefði í hyggju að breyta reglugerð sem þá var á hans valdi, þ.e. að breyta reglugerð almannatrygginga á þann veg að greitt yrði 20% af tannlæknakostnaði fyrir alla þá sem höfðu fengið greitt úr almannatryggingakerfinu. Sem sagt að tryggingakerfið ætlaði að fara að taka þátt í að greiða 20% af tannlæknakostnaði hjá öllum.

[16:30]

Það var ljóst að slík yfirlýsing frá hæstv. þáv. heilbrrh. hafði þau áhrif á þingmenn að þeir töldu að fyrst ætti að fara út í svona víðtækar aðgerðir til að lækka tannlæknakostnað heimilanna, þá væri það nægjanlegt og hafði því áhrif í atkvæðagreiðslunni á afstöðu margra þingmanna þannig að þetta frv. sem ég nú mæli fyrir náði ekki fram að ganga þá. En þannig vildi til að þessi yfirlýsing frá hæstv. þáv. heilbrrh. kom örfáum mánuðum fyrir kosningar og þegar nýr heilbrrh. hafði tekið við nokkrum mánuðum seinna --- reglugerðin átti að ganga í gildi í júní 1983, þ.e. örfáum mánuðum eftir að yfirlýsing ráðherrans kom --- þá felldi hann þessa reglugerð úr gildi. Hann tók sig snarlega til, herra forseti, og felldi einfaldlega reglugerðina úr gildi. Það var hæstv. þáv. heilbrrh. Sjálfstfl., Matthías Bjarnason. Hún komst því aldrei til framkvæmda. Sú yfirlýsing sem þarna kom, sjálfsagt í góðri trú, varð þess valdandi að þetta frv. náði ekki fram að ganga sem örugglega hefði orðið að lögum fyrir 15 árum ef þessi yfirlýsing hefði ekki komið og hefði átt þátt í því, herra forseti, að draga verulega úr útgjöldum heimilanna vegna tannlæknakostnaðar. Ég held að það sé alveg ástæða til að halda forsögu þessa máls til haga til að sýna fram á hver vilji þingsins var á sínum tíma í þessu efni og hann ætti einmitt að vera til staðar nú, ekki síður en þá, þegar í ljós hefur komið að á þessu umrædda 15 ára tímabili frá því að Alþingi fjallaði um þetta mál, hafa útgjöld heimilanna vegna tannlæknakostnaðar þrefaldast.

Ég vil einnig minna á annað sem tengist fyrirkomulagi tannlækninga sem við jafnaðarmenn lögðum til á síðasta þingi í nýrri stefnunotkun okkar í heilbrigðismálum, en þar var lagt til að stefna bæri að því að tannheilbrigðisþjónusta verði boðin á heilsugæslustöðvum til jafns við aðra grunnheilbrigðisþjónustu sem þar er veitt og á sömu kjörum. En þessi stefnumörkun tók einnig til tannheilbrigðisþjónustu þannig að það yrði hlutverk heilsugæslustöðva að sinna tannheilsugæslu til jafns við aðra grunnheilbrigðisþjónustu sem þar er veitt og á sömu kjörum, sem er mjög mikilvægt, herra forseti.

Ég veit ekki til hvaða nefndar á að vísa þessu máli og set það nokkuð í vald forseta. Á árinu 1983 þegar mál þetta var til meðferðar fór frv. til hv. heilbr.- og trn. Á síðasta þingi fór það til efh.- og viðskn. Mín ósk er sú að málið gangi til heilbrn. Fari svo að forseti leggi til aðra tilhögun, að málið fari til efh.- og viðskn., þá vil ég ítreka það sjónarmið mitt og ósk mína að efh.- og viðskn. sendi málið til umsagnar heilbr.- og trn. og hæstv. forseti geti þess þá þegar hann ber tillöguna upp til atkvæða.

Að öðru leyti legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og í ljósi forsögu þessa máls verði að teljast allar líkur á því að það hafi góðan hljómgrunn á Alþingi og komi aftur til kasta þingsins til 2. umr. og verði þar væntanlega samþykkt.

(Forseti (GÁ): Forseti skal halda þessari ósk hv. þm. til haga og fara yfir hana.)