Markaðshlutdeild fyrirtækja

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 13:51:17 (1141)

1997-11-12 13:51:17# 122. lþ. 23.7 fundur 220. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (bankastarfsemi) fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[13:51]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 223 spyr hv. þm. Tómas Ingi Olrich: Hefur ráðherra upplýsingar um markaðshlutdeild þriggja stærstu fyrirtækja landsins í bankastarfsemi?

Samkvæmt rekstrarreikningi viðskiptabanka og sparisjóða frá árinu 1996 var markaðshlutdeild þriggja stærstu fyrirtækjanna sem hér segir:

Landsbanki Íslands 35%, Íslandsbanki hf. 26% og Búnaðarbanki Íslands 18%. Markaðshlutdeild er mæld út frá vaxtatekjum og öðrum tekjum í samstæðureikningi fyrirtækjanna.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Telur ráðherra ástæðu til, með tilliti til markaðshlutdeildar þessara fyrirtækja, að setja lög sem takmarka umsvif og starfsemi fyrirtækja í bankastarfsemi umfram það sem samkeppnislög segja til um?

Sem svar við þeirri spurningu, herra forseti, vísa ég til svars míns við annarri fyrirspurn á þskj. 230 sem er efnislega samhljóða svari við því sem hér er spurt um.