Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 11:56:58 (1176)

1997-11-13 11:56:58# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[11:56]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði mjög grannt á ræðu hv. þm., ekki síst vegna þess að hann kemur úr því kjördæmi þar sem fólksfækkun hefur verið hvað mest og fólksflutningar verið, aðallega til höfuðborgarsvæðisins, og eins vegna þess að hann situr í stjórn Byggðastofnunar. Ég get verið sammála honum um margt af því sem kom fram en mér fannst hann einfalda málið dálítið mikið þegar hann fullyrti að þetta mál, þ.e. að fólk flytur af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, snúist um tvennt, atvinnu og laun. Þetta er ekki svona að mínu áliti. Það er hægt að nefna mörg dæmi því til staðfestingar. Þetta snýst ekki um atvinnu og laun. Meira að segja er vitað að á Vestfjörðum er bæði atvinna og tiltölulega há laun. Það er að vísu einhæf atvinna, það vitum við. Mér finnst þetta því allt of mikil einföldun.

Hann kom inn á þriðja stjórnsýslustigið þótt hann nefndi það ekki með þeim orðum. Hann talaði um að það væri ráð til þess að bæta þarna úr. Við höfum alloft talað um þetta þriðja stjórnsýslustig og alllengi, að vísu ekki mikið síðustu árin. Ég lít svo á að það sé ekki leiðin og það þýði ekkert að tala um þá leið núna. Með því erum við bara að dreifa umræðunni. Ég er sammála um stækkun sveitarfélaga og að nota þá leið til þess að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga en ekki leiðina sem hv. þm. nefndi vegna þess að ég held að við komum henni ekki til framkvæmda og við skulum ekki eyða tíma í umræðu um það.

Hann talaði um að völd og peningar væru í Reykjavík. Það er nokkuð til í því en við skulum samt hafa í huga að það er mikil fátækt til í Reykjavík og ekki síður en úti á landi.