Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 15:56:18 (1213)

1997-11-13 15:56:18# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[15:56]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var nokkur þungi í orðum hv. þm. og ég vil byrja á að leiðrétta það, ég hef setið undir umræðunni alveg frá upphafi og þar til nú. Það sem ég er að tala um er þetta: Hver er heildarstefna stofnunarinnar t.d. í sambandi við flutninga út á land og í framhaldi af ákvæði í stjórnarsáttmála sem ég fór með hér áðan? Ég spurði að því hvort það væri heildarstefna í gangi eða hvort það væru handahófskenndar ákvarðanir sem væru teknar. Ég vitnaði sérstaklega til þeirra hugmynda sem voru uppi um flutning starfseminnar til Akureyrar sem varð ekki niðurstaðan vegna þess að þá voru rökin þau að hún ætti að vera hér í Reykjavík en útibú ættu að vera í öllum landshlutum. (Gripið fram í: Þú meinar skrifstofur.) Ja, hvort sem við köllum það skrifstofur eða útibú. Alla vega hluti starfseminnar. Ég féllst á þessi rök en þó með naumindum því að ég vildi fá hana til Akureyrar.

Nú veit ég ekki hvað hefur gerst í stjórninni sem hefur orðið til þess að það er eitthvað annað uppi á teningnum. Þess vegna spyr ég hv. formann hvort hann geti komið hér í stuttu máli með þessa heildarstefnu. Er þetta einhver stefna sem þingflokkarnir fá að fjalla um eða hvað? Er búið að móta stefnuna?