Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 17:59:58 (1298)

1997-11-17 17:59:58# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði við umræðuna og ég skrifaði það niður eftir honum, að stóriðjustefnan væri gjaldþrota. (ÖS: Já og ég endurtók það.) Mér fannst það mikið sagt. Hann er í raun og veru að halda því fram að við eigum ekki að stefna að neinni stóriðju hér á Íslandi á næstunni. Mér finnst það vera mikil tíðindi. Ef það er skoðun Alþfl. eða jafnaðarmannaflokksins að svo eigi að verða, þá ætti þessi sami flokkur kannski að fara að venja sig á það að ræða málin með þeim hætti að það hafi einhverjar afleiðingar.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem er þingmaður jafnaðarmannaflokksins, kom hér upp í dag og sagði aftur og aftur og aftur: ,,Ætla menn að láta það duga að ellilífeyrisþegar fái ekki meira?`` Hvers konar hneyksli ... (ÖS: Hvað kemur það gróðurhúsalofttegundum ...?) Kemur það ekki atvinnuuppbyggingu við? Heldur hv. þm. að það sé nóg að gefa út dagblöð eða hvað? Það væri t.d. hægt að spara mjög mikið í sambandi við pappírsframleiðslu og mundi hafa jákvæð áhrif ef blöð væru minnkuð. (ÖS: Það kemur allt til greina.) Það kemur allt til greina, já. En hv. þm. og Alþfl. verður að gera sér grein fyrir því að það er ekki hægt að vera á móti öllu sem hnígur að verðmætasköpun en síðan eigi alltaf að vera hægt að eyða peningum hinum megin. Ég hélt að hv. þm. gerði sér grein fyrir þessum einföldu sannindum þannig að ég vil nú hvetja hann til þess að fara þá að æfa sig hinum megin. Hann getur ekki bara verið á móti því að skapa meiri verðmæti. Hann verður þá að fara sætta sig við það og boða það í sínum flokki að menn verða að búa sig undir verulegan niðurskurð tekna í framtíðinni og niðurskurð á fjárlögum.