Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 19:16:31 (1317)

1997-11-17 19:16:31# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[19:16]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er merkilegt að hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, skuli við þessar umræður og við þær aðstæður sem núna eru á Austurlandi þegar menn verða varir við mikinn fólksflótta þaðan, hafa mestu áhyggjurnar af að hugsanlega geti orðið þar um stóraukna atvinnuuppbyggingu að ræða. Það er merkilegt að hv. þm. þess kjördæmis skuli lýsa því yfir við þessa umræðu að þar liggi mestu áhyggjurnar. Það kann hins vegar að fara svo, því miður, eins og oft hefur farið að mörg hafa tækifærin verið til að gera stóriðjusamninga en allt of oft hefur það gerst að okkur hefur ekki tekist að ná samningum. Það gæti auðvitað farið svo að hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni yrði að ósk sinni í þeim efnum, að ekki tækjust samningar um byggingu álvers á Reyðarfirði, samningar við Norsk Hydro um byggingu fyrirtækisins. En það væru auðvitað kaldar kveðjur frá hv. þm. til Austfirðinga við þær kringumstæður sem þar eru nú, á sama tíma og sveitarfélög eru að sameinast til að styrkja stöðu sína til að vera betur í stakk búin til að byggja upp atvinnulífið og skapa þar betri aðstæður fyrir fólkið til að búa við.

En til að leiðrétta hv. þm. og undirstrika að í fyrsta áfanga í þeim fyrirætlunum sem núna eru í samningaviðræðunum við Norsk Hydro er gert ráð fyrir 240 þús. tonna álveri og það gæti tekið til starfa árið 2005. Annar áfangi er síðan gert ráð fyrir (Forseti hringir.) að verði jafnstór og sá fyrsti, og tæki til starfa árið 2010 og þriðji áfangi gæti síðan komið til en engar tímasetningar eru í þeim efnum og í umræðunni um loftslagsbreytingasamninginn (Forseti hringir.) eru menn fyrst núna að hugsa til ársins 2010.