Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 14:10:07 (1333)

1997-11-18 14:10:07# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:10]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég leyfi mér að blanda mér í síðustu orðaskipti þá skil ég spurningu hv. þm. þannig að svarið við henni sé: Já. Að hægt sé að gera kjarasamning sem um leið hafi áhrif á lífeyrisaðild viðkomandi, það hljóti að vera þannig og Vinnuveitendasambandið eða aðrir aðilar geti gert þann samning.

Ég kvaddi mér hins vegar hljóðs í andsvari, herra forseti, vegna þess að hæstv. fjmrh. mælti fyrir stjfrv. sem er í raun og veru kjarasamningur, víðtækur kjarasamningur sem mjög víðtæk sátt er um í þjóðfélaginu og hefur verið unnið að mjög lengi. Margt bendir til þess að um þennan samning geti verið mjög víðtæk sátt víða, m.a. hér í þessari stofnun, fyrir utan það að maður óttast það að vísu að eins og venjulega muni Sjálfstfl. þversum reyna að tefja þetta mál og jafnvel stöðva það eins og gerst hefur með hvert þjóðþrifamálið á fætur öðru í tíð núverandi ríkisstjórnar þegar stjórnarandstaðan hefur orðið að hlaupa undir bagga með ríkisstjórninni til að kom í gegn málum af því að Sjálfstfl. þversum setti sig þversum í málin.

Ég kvaddi mér hljóðs í andsvari þó fyrst og fremst, herra forseti, vegna þess að hæstv. fjmrh. hvatti til þess í framsöguræðu sinni, sem er mjög óvenjulegt, að hv. efh.- og viðskn. kannaði sérstaklega að breyta tilteknu mjög mikilvægu atriði í frv., því atriði sem lýtur að því hvernig farið er með innheimtu á lífeyrisiðgjöldunum, þ.e. 10%, þar sem fyrir liggur að verkalýðshreyfingin sem aðili að málinu telur það einn helsta kost málsins að gert er ráð fyrir að innheimtan fari í gegnum opinber kerfi og að þannig verði hægt að fylgjast með innheimtunni á vegum hins almenna skatteftirlits í landinu. Ég verð að segja alveg eins og er að það kom mér mjög á óvart að hæstv. fjmrh., í sjálfri framsögu málsins, skuli hvetja til þess að breyta þessu sem er ein af þýðingarmestu efnislegu forsendunum fyrir því að verkalýðshreyfingin gerði samkomulag um þá tegund máls sem hér liggur fyrir.