Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:03:51 (1343)

1997-11-18 15:03:51# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:03]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Hér hafa farið fram einkar athyglisverðar umræður. Ef ég ætti að draga saman í einni til tveimur setningum ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar, þá væri það einhvern veginn á þessa leið: ,,Miklir menn erum við, Hrólfur minn`` eða ,,sáuð þið hvernig ég tók hann``. Kjarninn í málflutningi hv. þm. Svavars Gestssonar var sá að alls ekki mætti breyta ríkisstjórnarfrv. og hann hrósar hæstv. fjmrh. í hástert fyrir frv. (Gripið fram í.) (Fjmrh.: Og þótti þeim síðarnefnda lofið gott.) þannig að óhætt er að segja að góður andi ríki í þeim umræðum sem hér fara fram.

Það væri mikil ósanngirni að halda öðru fram en því að frv. sé mikið breytt frá því frv. sem við sáum á hv. síðasta þingi. Breytingarnar felast að mínu mati aðallega í fjórum atriðum. Það er í fyrsta lagi að ekki er lengur gert ráð fyrir skilyrðislausri aðild að lífeyrissjóðum aðila vinnumarkaðarins. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að þeir sem ekki eiga aðild að kjarasamningi eða taka laun eftir kjarasamningi hafi val um það í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að séreign geti verið útgangspunktur í tryggingaverndinni. Eftir sem áður er um að ræða lágmarkssamtrygging en að séreignarsjóðirnir eins og við þekkjum þá geti starfað áfram með lágmarksbreytingum.

Í þriðja lagi er svo atriðið sem hv. þm. Svavar Gestsson gerði að umtalsefni í ræðu sinni áðan og það er að lífeyrissjóðir aðila vinnumarkaðarins, svo ég skilgreini það nánar, eru siðferðislega skuldbundnir til þess að bjóða upp á valkosti í lífeyrismálunum. Það þýðir að samkeppni mun komast á á milli lífeyrissjóðanna um viðbótartryggingaverndina og ekki bara milli lífeyrissjóðanna heldur á milli þeirra aðila annarra sem frv. heimilar að taki að sér að bjóða upp á viðbótartryggingaverndina. Þessi siðferðislega skylda helgast af bráðabirgðaákvæði II þar sem fram kemur að markmið frv. sé að auka valfrelsi í lífeyrissjóðsmálum og að fjmrh. sé skylt, ef það markmið nái ekki fram að ganga, að leggja fram frv. árið 2001 í þá áttina að þeim markmiðum verði náð. Það getur svo sem vel verið að önnur sjónarmið verði uppi á Alþingi þá. Það fáum við ekki séð fyrir. En siðferðislega skyldan er fyrir hendi og skylda fjmrh. til þess að bregðast við ef lífeyrissjóðir aðila vinnumarkaðarins bregðast þessari skyldu, er klárlega fyrir hendi.

Fjórða atriðið sem ég vildi nefna sem er kannski ekki beinlínis hluti af þessu frv. en er samt sem áður hluti af þessu heildarmáli og það er aukinn skattfrádráttur vegna lífeyrisiðgjalda eða hluta launamanns þannig að sá hluti geti verið 6% en ekki 4% og að þeim hluta geti launamaður ráðstafað að vild til þess lífeyrissjóðs eða þess aðila sem taka má við viðbótartryggingavernd sem hann velur.

Þessi atriði sem ég hef hér nefnt koma aðallega fram í 2., 3., 4., 8., 9. og 10. gr. frv. auk bráðabirgðaákvæðis II. Mér þykir auðvitað sárt að 2. gr., sem fjallar um aðild að lífeyrissjóðum, skuli ekki veita fullt valfrelsi um lífeyrissjóði eins og ég ásamt félögum mínum hef lagt til í flutningi þingmála á hv. Alþingi. Það fer hins vegar ekkert á milli mála að hér er um opnun að ræða frá því sem nú er og frá því sem lagt var til í frv. á síðasta hv. þingi og því ekki annað en ástæða til þess að fagna því. En mikið vildi ég að það hefði verið meiri opnun. Ég er sannfærður um að það hefði orðið þjóðfélaginu öllu til hagsbóta ef opnunin hefði verið meiri en þar er ráð fyrir gert. Og ef einhver möguleiki væri á að breyta einhverju í frv. þá mundi ég helst óska þess að það væri í þessari grein þannig að valfrelsið yrði algert og að afskipti ríkisvaldsins sem hv. þm. Svavar Gestsson var að gagnrýna að Sjálfstfl. stæði fyrir, væru í þá áttina að raunverulegu valfrelsi yrði komið á og að launamenn væru frelsaðir undan forsjárhyggju verkalýðsrekenda.

3., 4., 8., 9. og 10. gr. fjalla um lágmarkstryggingaverndina og viðbótartryggingavernd sem hægt er að bjóða upp á. Ég hef heyrt á sumum að þeir hafi litið svo á að það sé skylda lífeyrissjóðanna að þeir bjóði upp á þetta valfrelsi, að þeir skilgreini lágmarksverndina og bjóði viðbótartryggingaverndina. Að mínu mati er þessi skylda fyrst og fremst siðferðisleg og helgast m.a. af bráðabirgðaákvæði II. Það er hins vegar alveg ljóst að hyggist lífeyrissjóður bjóða upp á valfrelsið og skilgreina lágmarkstryggingavernd, þá hefur launamaður valfrelsi um það hvert hann ráðstafar þessum hluta upp á 10% sem vantar þegar lágmarkstryggingaverndin hefur verið reiknuð út og það er afar mikilvægt því að það þýðir að heildarniðurstaðan í breytingunum á okkar lífeyrissjóðakerfi er þá sú að allt að 2% gætu verið til valfrjálsrar ráðstöfunar sem viðbótartryggingavernd vegna skilgreiningar á lágmarkstryggingavernd. Síðan er 2% viðbótarframlagið af hluta launamanns jafnframt til frjálsrar ráðstöfunar þannig að 4% af 12% eru til frjálsrar ráðstöfunar til lífeyrissjóða eða séreignarsjóða þeirra sem heimild hafa til að starfa samkvæmt frv. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði því að það mun auka samkeppnina og auka aðhaldið í lífeyrissjóðamálunum og væntanlega í framtíðinni auka ávöxtunina sem sjóðirnir fá umbjóðendum sínum til handa og jafnframt draga úr rekstrarkostnaði sjóðanna því að eins og við vitum, er sá kostnaður langt umfram það sem nauðsynlegt þarf að vera.

Mér sýnist því að í frv. sé stigið skref fram á við til aukins frelsis í lífeyrissjóðamálum þótt ég vildi gjarnan hafa séð skrefið vera miklu stærra. Boltinn er að mínu mati hjá sjóðunum og hjá fólkinu sem greiðir í sjóðina. Það getur skilgreint sig út úr sjóðunum með því hvar það velur að starfa og í hvers konar og í hvaða verkalýðsfélögum það kýs að starfa og sjóðirnir geta veitt sínum umbjóðendum umtalsvert valfrelsi. Ég lít hins vegar ekki á þetta sem neinn endapunk í þróuninni. Ég lít á þetta sem eitt skref í áttina að endapunktinum og mun halda áfram baráttu minni fyrir auknu valfrelsi. Ég mun styðja þetta frv. og greiða því atkvæði, en mun þó hafa fyrirvara um 2. gr. frv. því að ég treysti mér ekki til þess að greiða atkvæði með því að launamenn séu skyldaðir til að greiða í sjóði með kjarasamningi. Ég tel að þar eigi að gilda fullt frelsi en að mikilvægt sé að fagna þessum áfanga, mikilvægt að á frelsið og samkeppnina verði reynt og þeir sem reka verkalýðsfélögin og þeir sem reka lífeyrissjóðina sjái það svart á hvítu að þeim stendur engin ógn af valfrelsinu. Meðan þeir standa sig í stykkinu, þurfa þeir ekki að hafa áhyggjur af því að fólk gangi unnvörpum úr verkalýðsfélögunum eða þá að fólk gangi unnvörpum úr lífeyrissjóðunum. Þeir munu átta sig á því að það mun verða sjóðunum og verkalýðsfélögunum til styrktar að bjóða launamönnum, umbjóðendum sínum, upp á valfrelsi í lífeyrismálum.