Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:32:56 (1349)

1997-11-18 15:32:56# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:32]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Nú gerist það að tveir þingmenn Sjálfstfl. í þessari umræðu koma hér og lýsa yfir fyrirvara við sömu greinina, þ.e. við 2. gr. sem er grundvallargrein frv. Hv. þm. ræddi reyndar nokkra aðra þætti sem honum fannst að mættu fara betur og ætla ég í sjálfu sér ekkert að fara í efnislega umræðu um þau atriði, hann rökstuddi mál sitt vel. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að þetta er orðin dálítið óvanaleg staða. Þeir þingmenn Sjálfstfl. sem hafa komið hér upp hafa lýst yfir fyrirvara, hlutleysi og jafnvel andstöðu við tiltekna þætti stjfrv. Ég hef rakið tilurð frv. sem hefur væntanlega verið rætt í þingflokkum stjórnarliða, þar á meðal í þingflokki Sjálfstfl., og ég er í sjálfu sér ekki að draga í efa þingmeirihluta eða neitt þess háttar. Ég kýs hins vegar, herra forseti, að vekja sérstaka athygli á því að þingmenn Sjálfstfl. eru mjög óánægðir með tiltekinn þátt, jafnvel þó að þeir viti hvernig þetta frv. er til orðið og þekki forsöguna mætavel. Ég ítreka aftur þá skoðun mína að hérna stefnir hugsanlega í átök um þingmálið. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það á þessum tímapunkti. Hv. þm. boðaði ekkert slíkt í sjálfu sér í ræðu sinni, en þetta er vitaskuld umhugsunarefni fyrir okkur stjórnarandstæðinga, verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins og fjmrh. að umræðan skuli þróast á svo neikvæðan hátt hvað viðkemur grundvallaratriðum í frv. ríkisstjórnarinnar.