Landbrot af völdum Þjórsár

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:02:28 (1402)

1997-11-19 14:02:28# 122. lþ. 28.3 fundur 240. mál: #A landbrot af völdum Þjórsár# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi GÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Með tilkomu virkjana í Þjórsá og Tungnaá á undanförnum árum er ljóst að vetrarrennsli Þjórsár í byggð hefur aukist verulega. Það er viðhorf margra hlutaðeigandi landeigenda á bökkum Þjórsár að landbrot hafi aukist og þá sérstaklega að vetrarlagi. Þá myndast oft ísstíflur og Þjórsá bólgnar upp og flæmist þá gjarnan út úr farvegi sínum. Hætta á landskemmdum vex því við aukið rennsli.

Heilt bæjarhverfi á vesturbakka Þjórsár býr nú við vaxandi ógn af völdum Þjórsár. Það sannaði flóð í fyrravetur. Mér sýnist brýnt að hækka veginn og styrkja að Egilsstöðum og Egilsstaðakoti. Enn fremur verði að gera leiðigarð sem beinir Þjórsá frá vesturbakkanum og bæjunum í Mjósundi, Forsæti og Ferjunesi.

Því er ekki að leyna að eftir að þetta vatnsrennsli jókst brýtur Þjórsá víðar land, svo sem á Skeiðum og auðvitað er það svo sem betur fer að Landsvirkjun hefur tekið þátt í varnaraðgerðum gegnum tíðina. En ég hef áhyggjur af því sem bæði er að gerast á hálendinu og því aukna vatnsmagni sem stefnt er á að fari um farveginn og að af því stafi hætta. Því vil ég vekja athygli á þessu máli og gera kröfu um að þeir sem að málinu koma verði leiddir saman og mörkuð verði stefna.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. landbrh. eftirfarandi spurninga:

Er til heildarúttekt á landbroti af völdum Þjórsár síðan virkjanir hófust?

Hefur Landsvirkjun kostað aðgerðir til varnar landbroti við Þjórsá?

Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar á næstu árum til að koma í veg fyrir frekara landbrot á bökkum Þjórsár í byggð og til að fyrirbyggja að Þjórsá flæmist að vetri um byggð í Villingaholtshreppi, eins og ég gat um áður?