Landbrot af völdum Þjórsár

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:11:28 (1405)

1997-11-19 14:11:28# 122. lþ. 28.3 fundur 240. mál: #A landbrot af völdum Þjórsár# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi GÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:11]

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. svör hans og þær upplýsingar sem hann hér kom með. Þrír aðilar þurfa að koma að þessu verki, Landgræðslan, Landsvirkjun og Vegagerðin þannig að mikilvægt er að leiða þessi miklu fyrirtæki áfram. Ég held að það hafi komið fram í áliti Landgræðslunnar að þessa ógnun sem a.m.k. mannabyggð stafar af því að Þjórsá flæmist úr sínum farvegi, er einfalt að leysa með vegagerð á tvo vegu, þ.e. að hækka veginn og styrkja að Egilsstöðum og Egilsstaðakoti og síðan niður að Mjósyndi. Þá væru menn búnir að bægja þeirri vá frá. Þarna væri ekkert óeðlilegt að Landsvirkjun kæmi að og síðan nefndi hæstv. ráðherra leiðigarð sem einnig kæmi til greina.

Ég held að þetta mál þoli enga bið og menn þurfa að taka á því. Við þingmenn höfum auðvitað rætt þetta við þessar stofnanir og munum gera það áfram. Við væntum þess, sem hér kom fram, að hið háa Alþingi verji vaxandi fjármagni til þess að verjast landbroti því að það er bæði á Suðurlandi og sjálfsagt víðar vaxandi vandamál og í það varnarstarf fara of litlir peningar.

Ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, og þakka hæstv. ráðherra hans svör.