Biðlauna- og lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisbankanna

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:26:13 (1409)

1997-11-19 14:26:13# 122. lþ. 28.4 fundur 106. mál: #A biðlauna- og lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisbankanna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:26]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan í minni fyrri ræðu, þá hefur ríkið aldrei viðurkennt þennan biðlaunarétt. Sé hann hins vegar til staðar, þá vísast á lög, eins og ég sagði hér áðan, nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Varðandi hitt atriðið sem hv. þm. gerði athugasemd við og snýr að skuldbindingu ríkissjóðs á eftirlaunasjóðunum, þá segir í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1997, um Búnaðarbanka Íslands hf. og Landsbanka Íslands hf., með leyfi forseta:

,,Ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands gagnvart Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans og skuldbindingum Búnaðarbanka Íslands gagnvart Eftirlaunasjóði starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, sem verða til vegna starfsmanna ríkisviðskiptabankanna áður en rekstur þeirra er yfirtekinn af`` viðkomandi hlutafélagi ,,og til staðar eru samkvæmt reglugerðum eftirlaunasjóðanna eins og þær eru ...`` við yfirtökuna.

Þetta er alveg skýrt. Ábyrgðin er þarna til staðar, til þessa tilsetta tíma.

Í undirbúningi hafa síðan verið, eins og ég lýsti áðan, breytingar á reglugerðum sjóðanna. Annars vegar er búið að breyta reglugerðinni um Eftirlaunasjóð Landsbankans og Seðlabankans. Sú breyting var samþykkt af starfsmönnum viðkomandi stofnana á sérstökum fundi sem þar var haldinn með mjög góðum undirbúningi. Ég tel að mjög vel hafi verið vandað til alls þess undirbúnings af bæði Landsbankanum og Seðlabankanum og umræða er í gangi meðal starfsmanna Búnaðarbankans um sambærilegar breytingar. Þær hafa ekki verið samþykktar. Ég tel að þar hafi líka verið vel til þess undirbúnings alls vandað, þ.e. hver einstakur starfsmaður hefur verið reiknaður út þannig að menn sjá nákvæmlega hvaða rétt þeir hafa og hvaða réttindi þeir geta haft með því að velja milli deilda.