Þungaskattur

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:45:01 (1438)

1997-11-19 15:45:01# 122. lþ. 28.11 fundur 272. mál: #A þungaskattur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi GL
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Lárusson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svarið að svo miklu leyti sem hægt er að tala um svar því að þeir sem hafa fylgst með umræðunni um breytingu á innheimtu þungaskatts vita að þeirri ákvörðun hefur verið frestað æ ofan í æ og þess vegna eru ekki miklar líkur á því að sú löggjöf verði tilbúin á næstu mánuðum. Þess vegna mega sendibílstjórar búast við því, eftir svari hæstv. ráðherra að dæma, að áfram ríki styrjaldarástand á götum Reykjavíkurborgar allt næsta ár sem er algerlega óviðunandi. Og það er raunverulega óviðunandi að lögunum skuli ekki vera breytt þannig að öll tvímæli verði tekin af um það að allir aðilar sitji við sama borð eins og segir í úrskurði samkeppnisstofnunar.

Ef niðurstaðan er hins vegar sú að lögum verður ekki breytt, þá er ekkert annað fyrir sendibílstjóra að gera en að taka upp siði starfsbræðra sinna í Frakklandi og mæta hér fyrir utan Alþingishúsið og liggja á flautunni þangað til lögunum hefur verið breytt.