Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:23:03 (1538)

1997-12-02 14:23:03# 122. lþ. 32.4 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:23]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka undir orð hv. 4. þm. Vesturl. um það að þessi lög þarf að úrelda. Það kemur að því alveg örugglega í fyllingu tímans að þau verða aflögð.

Mig langar að leggja inn örfá orð í þessu máli sem fjallar um úreldingu og endurnýjunarreglur fiskiskipa. Meginrökin fyrir þessu frv. eru að veiðitakmarkanir aflahlutdeildarkerfisins eru nægilegar og menn eiga sjálfir að bera ábyrgð á áætlunum um rekstrarhæfi fjárfestinga sinna. Brottfall sérstaks endurnýjunarkostnaðar á að greiða fyrir endurnýjun flotans með nýrri, öruggari og fullkomnari skipum þar sem aðstaða er til betri hráefnismeðferðar og vöruvöndunar og auk þess betri aðbúnaður fyrir sjómenn. Það var og það skal viðurkennt hér að á sínum tíma var þörf fyrir stífar reglur varðandi stækkun fiskiskipa við endurnýjun þeirra, en verulega breytt viðhorf eru orðin varðandi ýmsar tegundir fiskiskipa til þess að nútímaskip geti gegnt því hlutverki sem til er ætlast og í flestum tilvikum er um að ræða aukna þörf á rými vegna meðferðar afla og vegna aðbúnaðar skipverja svo nokkuð sé nefnt.

Við endurnýjun skipa í flokki skipa fyrir uppsjávarveiðar á þetta einkum við. Ég vil almennt taka undir þetta frv. en tel eðlilegt, og vil koma því hér að, að þær útgerðir sem hafa stækkað skip sín eða keypt ný á þessu ári megi ráðstafa þeim rúmmetrum sem samkvæmt þessu frv. hefðu verið ónauðsynleg fjárfesting. Því vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann vilji beita sér fyrir þessari breytingu og að hún verði gerð í meðferð hv. sjútvn. Alþingis.