Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 15:44:16 (1553)

1997-12-02 15:44:16# 122. lþ. 32.5 fundur 302. mál: #A þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úrelding krókabáta) frv., 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:44]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það var dálítið fróðlegt áðan að hlýða á skoðanaskipti hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þar sem sá síðarnefndi kallaði eftir ákveðinni framtíðarsýn eða framtíðarstefnu í þessum málaflokki en hinn svaraði því til að lög giltu aðeins á meðan þau giltu, á meðan pólitískur vilji væri til þess að þau giltu og að þangað til þau væru felld úr gildi eða breytt, þá giltu þau. Þetta voru grundvallarsjónarmiðin í þeim skoðanaskiptum. Það er árviss viðburður að ræða einhvern uppskurð eða uppstokkun á stjórn veiða smábáta.

[15:45]

Það frv. sem við ræðum hér er niðurstaða viðræðna ráðuneytisins og Landssambands smábátaeigenda. Það er lenska hér á Alþingi að þegar hagsmunaaðilar komast að samkomulagi við ráðuneytið, þá fikti Alþingi ekki mikið í því frv. og ég geri varla ráð fyrir að svo verði nú. Þó vil ég, virðulegi forseti, vekja athygli á tveimur þáttum í þessu máli sem stinga örlítið í augu. Í fyrsta lagi er það sem segir í almennum athugasemdum með frv. og hv. þm. Magnús Stefánsson spurði hæstv. sjútvrh. um áðan. En það var ekki gott að átta sig á því hvort hæstv. sjútvrh. væri með á nótunum um hvað málið snerist. Á bls. 4 í athugasemdunum segir, með leyfi forseta:

,,Einnig er lagt til í þessu frumvarpi það nýmæli að krókabát á sóknardögum megi alltaf flytja án veiðiheimilda yfir í þorskaflahámark, en reiknað þorskaflahámark bátsins verður þá eftir í sóknardagakerfinu sem báturinn fer úr. Getur þetta orðið til þess að endurnýjun báta í þorskaflahámarkskerfinu stuðli að fækkun sóknardagabáta.``

Ég fæ ekki skilið þetta öðruvísi en svo, virðulegi forseti, að ef til þess kemur að slíkir bátar skipta um og fara yfir á þorskaflahámark en skilja eftir í sóknardagakerfinu sínar veiðiheimildir, þá hljóta þeir að vera að éta af þeim sem þar eru fyrir. Ég get a.m.k. ekki skilið það öðruvísi en svo ef veiðiheimildir verða eftir í einu af þessum fjórum fiskveiðistjórnarkerfum sem nauðsynleg eru til þess að stjórna fiskveiðum smábáta. Alla vega held ég að nauðsynlegt sé að hæstv. sjútvrh. skýri þetta frekar því að í frv. eru á ferðinni tvær leiðir. Annars vegar er að menn geti endurskoðað val sitt fyrir 1. febrúar 1998 og síðan er hin leiðin að menn geti alltaf farið af sóknardagakerfi yfir í þorskaflahámark og það er sá þáttur sem er verið að spyrja um, þ.e. seinni þátturinn. Ég held að það sé nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. skýri þetta frekar en hann hefur gert.

Hitt atriðið sem ég vil vekja sérstaka athygli á er að hér er vitaskuld verið að auka framsals- og leiguréttindi á aflaheimildum. Það er með öðrum orðum verið að færa það atriði sem helst er gagnrýnt í aflamarkskerfinu inn í þetta stjórnkerfi af meiri þunga en verið hefur og nú eru felld niður þau skilyrði fyrir framsali þorskaflahámarks að veiðileyfi sé fellt niður og endurnýjunarrétti afsalað þannig að varanlegt þorskaflahámark yrði því skiptanlegt og framseljanlegt milli báta í þorskaflahámarkskerfinu.

Annað atriði sem ég vil einnig vekja athygli á í þessu sambandi er að heimild til þess að framselja úthlutuðu þorskaflahámarki innan hvers fiskveiðiárs verði takmörkuð við 30% í staðinn fyrir 20% eins og nú er. Af hverju er þetta gert? Hvar er hægt að finna röksemdafærslu fyrir þessu í frv.? Hana er hvergi að finna. Jú, það er gert að ósk Landssambands smábátaeigenda. Ekki er um frekari rökstuðning að ræða í frv. og því erfitt að draga af því einhverjar sérstakar ályktanir aðrar en þær að verið er að færa þessa braskmöguleika úr aflamarkskerfinu yfir í þetta kerfi.

Það er annar angi af þessu sem ekki hefur komið fram í þessari umræðu og er einmitt að gerast þessa dagana og hefur verið að gerast undanfarna mánuði og það er að fjársterkir aðilar eru að kaupa upp í stórum stíl þessa smábáta í þeirri von að smám saman muni sú þróun verða í þessu kerfi líkt og í aflamarkskerfinu að hægt verði að framselja og leigja þær aflaheimildir sem eru á hverjum bát. Miðað við það hvernig þróunin hefur verið í aflamarkskerfinu hvað stærri bátana varðar, þá telja menn þetta líklega þróun í þessu og muni væntanlega skila verulegum arði þegar fram líða stundir og menn geta farið að braska með þetta eins og nú viðgengst í aflamarkskerfinu. Það er því spurning og full ástæða til að velta því fyrir sér í ljósi þeirrar röksemdafærslu sem menn jafnan hafa sett fram fyrir sérstöðu smábátanna --- sem er sú að þarna sé um að ræða einstakling, eiganda báts, sem stundar umhverfisvænar veiðar sem skipta miklu máli fyrir minni staðina úti á landi --- hvort ekki sé ástæða til að fara hér svipaða leið og mér skilst að menn hafi farið í Noregi, þ.e. að veiðileyfi á þessa báta séu takmörkuð við það að eigendur stundi a.m.k. veiðar á 50% af þeim tíma sem skipið eða báturinn er á sjó. Ég held að það sé full ástæða til að skoða einhverja slíka hluti í því skyni að reyna að koma í veg fyrir að jafnmikil óánægja verði með stjórnun á smábátunum og nú er með stjórnun á aflamarksbátunum stóru.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég taka undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan þegar hann lagði til að fenginn yrði sagnfræðingur eða einhver góður nemandi í háskólanum til þess að rannsaka hvernig þetta kerfi hefur breyst í gegnum tíðina. En ég er voðalega hræddur um, virðulegi forseti, að einum manni yrði það meira en ævistarf að upplýsa, rannsaka og skýra þær breytingar sem orðið hafa á stjórnkerfi smábáta.