Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 14:11:11 (1645)

1997-12-04 14:11:11# 122. lþ. 35.4 fundur 289. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:11]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, með síðari breytingum.

Með frv. er lagt til að fresturinn sem sjómönnum var veittur til að sækja öryggisfræðslunámskeið verði framlengdur um eitt ár eða til ársloka 1998.

Árið 1994 urðu tímamót í öryggismálum sjómanna þegar lögfest var öryggisfræðsla fyrir sjómenn. Samkvæmt lögunum var yfirlýsing um að skipverji hefði hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan sambærilegan hátt gerð að skilyrði fyrir lögskráningu sjómanna. Skipstjórnarmönnum var veittur frestur til 31. desember 1995 til að fullnægja ákvæðinu, en öðrum skipverjum til 31. desember 1996. Nýliðar um borð höfðu sex mánaða frest til að sækja þessi námskeið. Frestirnir voru upphaflega byggðir á áætlun Slysavarnaskólans, en þá var talið að um 800 sjómenn hefðu ekki fengið slíka fræðslu.

Þegar leið að lokum þessa frests var ljóst að þrátt fyrir aðlögunartímann hafði töluverður hópur skipstjórnarmanna ekki enn lokið öryggisfræðslunáminu. Námskeið Slysavarnaskólans voru fullbókuð út árið og því var talið rétt að fresta gildistökunni um ár. Sagan endurtók sig árið eftir og lagði skólastjóri Slysavarnaskólans þá til að fresturinn yrði enn framlengdur um eitt ár, til ársloka 1997.

Nú þegar líður að lokum frestsins liggur fyrir að áætlunin hefur ekki staðist því enn eiga margir sjómenn ólokið lögbundinni öryggisfræðslu.

Með frumvarpinu er því lagt til að sjómönnum verði enn veittur frestur, til 31. desember á næsta ári, til að sækja öryggisfræðslunámskeið en með ströngum skilyrðum eins og fram kemur í frumvarpinu.

Skilyrðið er fyrst og fremst það að þeir sjómenn sem enn hafa ekki sótt öryggisfræðslunámskeið skrái sig fyrir árslok á námskeið. Lagt er til að undirbúningur og framkvæmd laganna verði eins og lýst er í greinargerð sem fylgir frv. Siglingaráð hefur samþykkt að mæla með að þessi frestur verði samþykktur.

Auk þess er með frv. lagt til að ráðherra verði heimilað að setja reglur um endurmenntun sjómanna á þessu sviði. Með því að krefjast endurmenntunar sjómanna má tvímælalaust viðhalda og efla öryggisvitund meðal þeirra og þar með auka öryggi um borð í skipum og stuðla að fækkun slysa um borð í fiskiskipum sem eru allt of mörg og kalla á að við reynum að leita allra leiða sem færar eru til þess að draga úr þeim og fækka þeim.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn. Ég bið hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, afsökunar á því hversu seint þetta frv. er fram komið úr því að það þarf afgreiðslu fyrir áramót. En það er einfalt í sniðum og ég vonast til að samgn. geti afgreitt frv. fljótt og vel.