Frumvarp til sveitarstjórnarlaga

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 10:49:37 (1721)

1997-12-05 10:49:37# 122. lþ. 36.93 fundur 114#B frumvarp til sveitarstjórnarlaga# (um fundarstjórn), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[10:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég á ekki von á því að þjóðlendufrv. taki miklum breytingum í þingflokkunum. Það var rætt ítarlega í þingflokkunum í fyrra. Þessi mál hafa þegar verið rædd í samhengi í þingflokki framsóknarmanna þannig að frv. um þjóðlendur er fljótafgreitt þar. Ég hef í höndum minnisblað frá Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni sem var, ef ég man rétt, ritari þeirrar nefndar sem samdi frv. um þjóðlendur og gekk frá frv. í þeirri mynd sem það er nú. Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér nokkrar málsgreinar úr þessu minnisblaði:

,,Í frv. til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignalanda, þjóðlendna og afrétta sem rætt var um á síðasta þingi er lagt til að sveitarfélögum verði fengin ákveðin verkefni um stjórnsýslu innan þjóðlendna, óháð því hvort sá hluti þjóðlendu telst afréttur. Í athugasemdum með frv. sagði að rétt væri að breyta ákvæðum sveitarstjórnarlaga og setja þar efnisreglur um hvernig beri að skipta svæðum í þjóðlendum, innan staðarmarka sveitarfélaga, þegar ekki verður byggt á afréttarnotum. Það er því ekki rétt sem haldið hefur verið fram í umræðum um þessi mál að sú tillaga í frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga að skipa hálendinu utan afrétta innan staðarmarka sveitarfélaga sé í ósamræmi við þjóðlendufrv.``

Ég tel sem sagt að það sé fullkomið samræmi á milli þessara frumvarpa. Ég get fallist á að eðlilegt sé að óska eftir viðveru hæstv. forsrh. áður en þessari umræðu lýkur en tel að umræðan geti hafist þó að hæstv. forsrh. sé ekki kominn í salinn.