Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 14:06:08 (1746)

1997-12-05 14:06:08# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:06]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og við mátti búast hefur umræðan í dag fyrst og fremst snúist um ákvæði til bráðabirgða, en við erum hér að fjalla um frv. sem er hvorki meira né minna en 105 greinar og fjallar um afar mikilvægt málefni. Því vil ég nú beina því til þeirra þingmanna sem eiga eftir að tala hér í dag, og ég vona að í þeirra hópi séu einhverjir hinna margreyndu sveitarstjórnarmanna sem er að finna hér á þinginu, að þeir taki til máls og komi sínum ábendingum á framfæri varðandi frv. Hér er um afar mikilvæga löggjöf að ræða.

Í því samhengi vil ég vekja athygli á því að fyrir nokkrum vikum var mælt fyrir frv. sem tengist þessu, frv. til laga um kosningar til sveitarstjórna og það fór algerlega umræðulaust í gegnum 1. umr. Þar er svo sem við okkur að sakast í hv. félmn. Eitthvað vorum við ekki vakandi yfir málinu, hvað þá aðrir, en þar er að finna ýmis atriði sem hefði verið mjög brýnt að ræða og fá að heyra skoðanir þingmanna á. Þar vil ég í fyrsta lagi nefna það atriði hvort rétt og tímabært sé að veita fleiri útlendingum sem búsettir eru hér á landi rétt til að kjósa til sveitarstjórnar. Samkvæmt núgildandi lögum eru það einungis íbúar Norðurlandanna sem hafa þann rétt. Um þetta málefni hefur engin umræða átt sér stað, mér vitanlega, hér á landi en önnur ríki hafa á undanförnum árum verið að víkka út þennan rétt. Ég er þá ekki síst að hugsa til þess fólks sem er búsett hér á landi, jafnvel gift Íslendingum hefur veirð búsett hér um lengri tíma en heldur sínum ríkisborgararétti. Á Norðurlöndunum og víðar hefur þessi réttur verið víkkaður út.

Við höfum verið að ræða þetta í hv. félmn. Við höfum einnig verið að ræða um tímasetningar í þessu frv. varðandi það að utankjörstaðarkosningar hefjast löngu áður en framboðsfrestur rennur út. Ýmislegt er að finna í þessu frv. sem er býsna fornfálegt eins og það að nota beri dökk ritblý sem ávallt skuli vera vel ydduð. Síðast en ekki síst, hæstv. forseti, er í þessu frv. og reyndar tekið upp úr núgildandi lögum, ákvæði sem einnig er að finna í lögum um kosningar til Alþingis. Þar eru ákvæði um kosningaspjöll sem hafa verið þverbrotin á undanförnum árum ef ekki áratugum. Allt þetta hefði verið afar fróðlegt að ræða um hér við 1. umr. Því miður var það ekki gert og mér sýnist stefna í þetta sama hér að þetta frv. eða þessar 105 greinar fái litla umræðu í dag.

Ég ætla að víkja að nokkrum atriðum þessa frv. áður en ég kem að ákvæði til bráðabirgða sem ég vil auðvitað ræða hér eins og aðrir. Ég vil vekja athygli á því að í 1. gr. þessa frv. er að finna breytingu sem tengist ákvæði til bráðabirgða þar sem segir: ,,Landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.`` Þarna hefur orðið ákveðin þróun. Í núgildandi lögum stendur ,,byggð`` en þar á undan stóð ,,ríkið``. Með þessari breytingu sem hér er að finna er verið að vísa til landsins alls, það á að skipta landinu öllu í sveitarfélög og þetta þarf auðvitað að skoða í samhengi.

Þá vil ég víkja að 6. gr. frv. og því atriði sem hæstv. félmrh. kom inn á í sinni ræðu varðandi lágmarksíbúatölu sveitarfélaga. Ég varð býsna undrandi þegar ég sá að þetta ákvæði stendur hér óbreytt, 50 íbúar. En ég get tekið undir og mér finnst það þess virði að velta fyrir sér hvort nokkur þörf sé á að breyta þessu. Þróunin er öll í þá átt að stækka sveitarfélögin en mér finnst samt að menn þurfi að velta því fyrir sér hvort það er eðlilegt að færa þessi mörk t.d. upp í 100. Hverju mundi það breyta? Ég veit ekki hvort hæstv. félmrh. hefur á takteinum í hversu mörgum sveitarfélögum eru á bilinu 50--100 manns. Þetta eru atriði sem vert er að velta fyrir sér. Það kann vel að vera rétt að það breyti í raun og veru engu.

Ég er ósammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um að það megi ekki nota mismunandi heiti yfir bæjarstjórnir eða borgarstjórn eða hreppsnefndir og mér finnst það nú gera tungumál okkar heldur fátæklegra ef við hættum að greina þarna á milli eftir því sem fólk vill. Mér finnst vera ákveðinn virðuleikablær yfir heitinu ,,borgarstjórn Reykjavíkur``, ,,borgarstjóri`` og ,,borgarstjórn`` þó ég sé yfirleitt ekki mjög hrifin af titlatogi en þarna greinir á milli stærða. Hreppshugtakið er auðvitað afar gamalt og í því felst nú orðið að þar er yfirleitt um fámennar byggðir að ræða þannig að mér finnst þetta ekki vera stórt atriði.

Þá er í 12. gr. frv. að finna atriði sem einnig er vert að skoða en það fjallar um það hvort lögbinda eigi, með þeim hætti sem þarna er gert og hefur verið gert, hver fjöldi sveitarstjórnarmanna skuli vera. Spurningin er hvort reglan ætti að vera eitthvað sveigjanlegri, þeim fjölgi um ákveðna tölu við ákveðna fjölgun íbúa eða eitthvað slíkt. Við munum eftir því hér í Reykjavík að á sínum tíma var samþykkt að fjölga borgarfulltrúum upp í 21, en síðan kom nýr meiri hluti og fækkaði borgarfulltrúunum aftur í 15 þannig að það var aðeins eitt kjörtímabil sem hér var 21 borgarfulltrúi. Það er afar merkilegt og sérkennilegt að fjöldi bæjarfulltrúa og síðan borgarfulltrúa í Reykjavík sé óbreyttur frá árinu 1908. Maður spyr hvað sé eðlilegt í þessu sambandi? Er eðlilegt að lögbinda þessa tölu með þessum hætti? Það er spurning, í litlum sveitarfélögum eins og segir hér í a-lið þar sem íbúar eru innan við 200, þá skulu vera þrír til fimm sveitarstjórnarmenn. Ég velti því fyrir mér hvort fimm manns eru ekki í raun og veru lágmark til þess að stjórn sveitarfélags sé með eðlilegum og lýðræðislegum hætti. Mér finnst þetta allt vera spurningar sem þarf að velta fyrir sér.

Þá kem ég að 19. gr. frv. þar sem fjallað er um hæfi sveitarstjórnarmanna og mér finnst það mjög af hinu góða að tekin séu af öll tvímæli og það sé einfaldlega í lögum hvenær telja beri fulltrúa óhæfa, hvenær þeir eigi að víkja af fundum. Hv. þingmenn minnast þess eflaust að á undanförnum árum hafa komið upp slík mál sem vísað hefur verið til félmrn. til úrskurðar m.a. þar sem átt hafa í hlut skólastjórar og kennarar. Ef ég man rétt, þá snerist málið um það hvort þeir væru óhæfir til þess að fjalla um skólamál. Ég held að þarna sé um að ræða hluti sem eiga að vera skýrir en engar slíkar reglur eru til um þingmenn. Þeim er gert að gera það upp við samvisku sína hvenær þeir eru hæfir til setu á nefndafundum eða þingfundum.

[14:15]

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vakti athygli mína á því, og hún kemur kannski inn á það í máli sínu á eftir, að það kann að vera erfitt að framfylgja 19. gr. í fámennum sveitarfélögum þar sem skyldleiki milli fólks er mikill og menn lenda kannski óhjákvæmilega í því að fjalla um málefni sem snerta skyldmenni eða aðra sem eru þeim nátengdir. Í litlu samfélagi getur verið erfitt að framkvæma þetta, en ég held að það hljóti alltaf að vera til góðs að þessi atriði séu sem skýrust.

Þá vil ég nefna 35. gr. frv. um þóknun og ferðakostnað. Í lögum er kveðið á um að skylt sé að ákveða hæfilega þóknun til sveitarstjórnarmanna. Ég vil vekja athygli á því að mér er sagt að það gangi æ verr að fá fólk til þess að bjóða sig fram til sveitarstjórna og að sveitarstjórnarmenn endist æ skemur. Það er mikil hreyfing, mikil endurnýjun og margir hafa bent á að þetta stafi m.a. af því að það er mikið og sívaxandi vinnuálag í sveitarstjórnunum. Mjög mikilvæg verkefni hafa verið færð yfir til sveitarstjórnanna en launin sem eru greidd fyrir þetta eru mjög mismunandi og víða hreinlega mjög léleg. Ég vek athygli á þessu, hæstv. forseti. Ég er ekki að leggja til að inn í lögin komi einhver lágmarkstala eða eitthvað slíkt. Ég held að sveitarstjórnirnar verði að ákveða þetta sjálfar en þarna er ákveðið vandræðaástand og nokkuð sem sveitarstjórnirnar þurfa að taka á því að eins og við höfum séð er sveitarstjórnarstigið að verða æ mikilvægara.

Þá vil ég víkja að 61. gr. þar sem er fjallað um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga og ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst orðalagið vera nokkuð óljóst. Það segir hér, með leyfi forseta:

,,Fyrir lok desembermánaðar skal sveitarstjórn gera fjárhagsáætlun fyrir sveitarsjóð og stofnanir sveitarfélagsins fyrir næstkomandi ár.``

Í skýringu við greinina kemur fram að ætlunin er að stytta þann tíma sem sveitarstjórnir hafa og gengið er út frá því að búið sé að samþykkja fjárhagsáætlun fyrir lok desember. Ég mundi skilja þessa grein þannig að það væri í rauninni nægilegt að leggja fram fjárhagsáætlun. En svo segir með skýringunni að hugsunin er að búið sé að samþykkja hana. Ég vil benda á að mér finnst þetta vera óskýrt orðalag og spurning hvort ekki eigi að breyta orðalaginu og segja: ,,Í lok desembermánaðar skal sveitarstjórn samþykkja fjárhagsáætlun.`` Ég spyr hæstv. félmrh.: Er einhver ákveðin hugsun á bak við þetta orðalag? Er verið að bjóða upp á einhvern sveigjanleika eða hvað? Mér finnst þetta ekki koma heim og saman.

Hæstv. forseti. Ég hef varið mestum hluta tíma míns í að ræða um einstakar greinar og mér finnst vera brýn þörf á því en ég ætla þá að víkja loks að ákvæði til bráðabirgða. Ég verð að segja að mér brá nokkuð í brún þegar ég sá þetta ákvæði því að mér finnst þetta mál, þ.e. hver fer með lögsögu og stjórnsýslu yfir miðhálendinu og öðrum óbyggðum svæðum mjög stórt og mikið mál.

Það er hárrétt sem fram kom í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að ákveðin þróun hefur orðið í þessum málum og á undanförnum vikum og mánuðum hefur eins og fram kemur í greinargerðinni nefnd verið að vinna að ýmsum úrlausnarefnum sem snerta hálendið, m.a. skilgreiningar á stjórnsýslumörkum á miðhálendinu. Eins og menn vita, hafa verið hér uppi margvísleg deilumál á undanförnum árum um hvar mörk liggja, um nýtingarrétt, eignarrétt og fleira. Ég get tekið undir að mér finnst brýnast að komið sé á stjórn þessara mála, það sé alveg ljóst hver ber ábyrgð en ég dreg mjög í efa og er ósátt við að þeim sveitarfélögum sem eiga land að hálendinu sé falin þessi stjórnsýsla. Ég hefði kosið að við færum aðra leið, að þessi sameign þjóðarinnar yrði undir sameiginlegri stjórn þó að ég sé ekki búin að hugsa mig nægilega vel í gegnum það hvernig það skuli gert. Mér finnst ekki felast í því neitt vantraust á viðkomandi sveitarfélög eða að þeim sé ekki treystandi fyrir þessu verkefni. Mér finnst þetta miklu frekar vera spurningin um það hvernig þetta fyrirkomulag á að vera en ég hlýt að spyrja mig hvort viðkomandi sveitarfélög hafi einfaldlega bolmagn til þess bæði að standa undir þeim kostnaði sem þessi verkefni kalla á, hvort þau hafi þá sérþekkingu, þann fjölda löggæslumanna o.s.frv. sem skipulag og eftirlit hálendisins mun kalla á. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að ef við ætlum að ná almennilegri stjórn á málefnum hálendisins mun það kosta peninga. Það gefur auga leið þannig að það eru mjög breytt viðhorf og mörg og mikil álitamál sem snerta nýtingu hálendisins, skipulag þess og nýtingarrétt. Um þetta hefur verið deilt og það hafa verið mikil blaðaskrif á undanförnum mánuðum. Síðast í gærkvöldi var haldinn fundur ýmissa náttúruverndarsamtaka sem sendu frá sér ályktun þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Fundurinn telur farsælast að stofnaður verði þjóðgarður sem nær yfir allt miðhálendið og væri sameign þjóðarinnar allrar.``

Síðan er í þessari ályktun komið á framfæri gagnrýni við tillögur þeirrar nefndar sem fjallaði um svæðisskipulag hálendisins.

Nú kann vel að vera að hægt sé að koma þessu heim og saman að sveitarstjórnir annist löggæslu og skipulag og tryggi heilsugæslu, eftirlit, umhverfisvernd og allt það sem sinna þarf heim og saman við það að gera miðhálendið að þjóðgarði en ég held að það sé afar langt í að það náist samkomulag um hvernig beri að skipuleggja þessi svæði og nýta þau. Það eru mismunandi skoðanir á því hversu langt eigi að ganga í umhverfisvernd, hversu langt eigi að ganga í virkjunarframkvæmdum o.s.frv. Þetta er einfaldlega mál sem þarf að fá góðan tíma og reyna að ná samkomulagi um. En eins og málið stendur núna hef ég miklar efasemdir um að rétt sé að viðkomandi sveitarstjórnir annist þau verkefni sem því fylgja að hafa stjórn miðhálendisins með höndum.

Við munum væntanlega skoða þetta rækilega í hv. félmn. og þetta mál mun væntanlega verða sent mjög víða til umsagnar og það er hið besta mál að um það verði mikil og góð umræða. En enn og aftur, hæstv. forseti, hefði verið áskjósanlegra að sérstaklega þetta mál hefði fengið sérstaka umfjöllun þannig að þingheimur reyndi nú að einbeita sér að hinum hluta frv., öllum þessum 105 greinum, og þeim umbótum og breytingum sem verið er að gera á fyrirkomulagi sveitarstjórnarmála. Það eru t.d. töluverðar breytingar á fjármálum og eftirliti með fjármálum sveitarfélaganna og hvernig ráðuneytið eigi að koma þar inn í og það skiptir máli að menn komi sjónarmiðum sínum á framfæri.

Hæstv. forseti. Ég tek undir frv. og efni þess í heild en hef mikinn fyrirvara varðandi ákvæði til bráðabirgða og ítreka efasemdir mínar um það fyrirkomulag sem er verið að festa enn ríkar í sessi verði þetta frv. að lögum með þessu ákvæði.