Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:47:53 (1773)

1997-12-05 15:47:53# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:47]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér talaði þingmaðurinn Magnús Stefánsson sem er líka í félmn. eins og sú sem hér stendur. Hann hefur reyndar ekki talað í þessu máli en ætlar væntanlega að gera það fyrst það kemur svona opin gagnrýni á það að ég hef bara rætt um 1. gr. Það kom hins vegar mjög skýrt fram í ræðu minni að ég tók einungis þessa grein þar sem mér finnst hún vera langalvarlegust í þessu máli hérna. Að sjálfsögðu get ég svo sem tínt til fleiri greinar, en við munum fara yfir það mál í félmn. saman. Mér finnst mikilvægast fyrir mig að nota tímann hér til þess að útskýra sjónarmið mín af því að ég veit að þau ganga þvert á Framsfl. Þess vegna geri ég það hér að mínu meginmáli.

Það er ekki rétt sem kom fram hér að ég hefði verið að gagnrýna sveitarstjórnarstigið, alls ekki. Ég var hins vegar að draga fram að t.d. í mínu sveitarfélagi, Seltjarnarnesi, sem er frekar stórt sveitarfélag --- þar búa 4.500 manns --- hefur það sýnt sig eins og víðast annars staðar að þar sem frumtillögur verða til í skipulagsmálum í því valdi að mjög erfitt er að breyta þeim síðar, það er mjög erfitt.

Varðandi miðhálendið almennt og hvort skipta eigi því inn í miðju, þá svaraði ég því áðan mjög skilmerkilega að ég sé fyrir mér t.d. að við getum notað þá línu sem samvinnunefndin vinnur eftir í dag, þ.e. línu á milli heimalanda og afrétta. Það er hægt að nota hana. Og að þar fyrir innan, á meginhluta miðhálendisins, verði eitt vald, ekki sveitarfélögin 40 heldur eitt vald, sennilega undir umhvrh.Það væri sennilega best að eitt vald færi með þau skipulagsmál í heild.