Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 18:26:02 (1796)

1997-12-05 18:26:02# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[18:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er algerlega sammála því sem hv. þm. segir. Sveitarstjórnir vilja meira að segja koma að málinu til þess að leysa þessi vandamál. En ég vil ekki að sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu komi einar að því. Hvers vegna? Vegna þess að ég óttast að hagsmunir þeirra séu aðrir en hagsmunir okkar sem búum hér á þéttbýlissvæðunum sem viljum hafa aðgang okkar að ósnortnu miðhálendi. Það sem hér um ræðir er ágreiningur milli mín og hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Stefna flokks míns liggur fyrir. Hún kom fram í því frv. sem Eiður Guðnason, þáv. umhvrh., lagði fram og gerði ráð fyrir því að það yrði ein sérstök stjórnarnefnd sem færi með skipulags- og byggingarmál á miðhálendinu. Ég tel að það væri farsælast. Hv. þm. styður frv. sem gerir ráð fyrir því að 40 sveitarfélög deili valdinu með sér. Ég tel ekki að það sé farsælt.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kom með dæmi fyrr í dag sem ég tel að lýsi vel þeim ágreiningi sem getur komið upp þegar miklar framkvæmdir eru einhvers staðar á þessu svæði og mörg smá sveitarfélög þurfi að koma að því. Ég tel að þetta sé óheppilegt. Á hinn bóginn lít ég á þetta sem að hluta til sem eins konar mannréttindamál. Ég og þeir sem eru í sama kjördæmi og ég erum nú þegar með atkvæðisrétt sem er bara 1/4 af vægi atkvæða sumra sem búa úti á landi. Ég vil og tel að það séu mannréttindi mín að ég fái sama atkvæðavægi. Ég tel líka að það séu mannréttindi mín og okkar sem búum hérna að við höfum sömu aðkomu að því að stjórna þessari dýrustu perlu Íslands eins og þeir sem eiga heima staðar í landinu.