Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 15:05:26 (1811)

1997-12-08 15:05:26# 122. lþ. 37.5 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:05]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88 31. desember 1991, sbr. lög nr. 1/1992, lög nr. 50/1994 og lög nr. 140/1995. Helstu atriði þessa frv. eru eftirtalin:

1. Með frv. þessu er lögð til hækkun á aukatekjutöxtum ríkissjóðs í I.--III. kafla og VIII. kafla laganna en þetta eru dómsmálagjöld, gjöld fyrir fullnustugerðir og búskipti fyrir sýslumann, gjöld fyrir þinglýsingar og lögbókandagerðir og gjöld fyrir ýmis vottorð og leyfi sem eru á valdsviði dómsmrn. Þessi gjöld hafa staðið óbreytt í sex ár, frá gildistöku laganna árið 1991, en frá þeim tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 13,5% og launavísitala um 24%.

Frv. gerir ráð fyrir að gjöldin hækki um 15% og er miðað við að hækkunin sé sem næst því að vera til jafns við hækkun verðlags sem orðið hefur frá gildistöku laganna. Hækkun þessari er stillt í hóf og er í því sambandi rétt að geta þess að rekstrarkostnaður héraðsdómstóla hefur hækkað um 21% frá árinu 1993 eftir aðskilnað dóms- og framkvæmdarvalds. Gert er ráð fyrir að hækkunin muni auka tekjur ríkissjóðs um 99 millj. kr., tæplega 100 millj. kr.

2. Þá er í öðru lagi lögð til breyting á V. kafla laganna um leyfi fyrir atvinnustarfsemi og tengd leyfi. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu að því er varðar verðbréfafyrirtæki sem nauðsynleg er vegna breytinga sem gerðar voru með lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, og leiðir til þess að verðbréfamiðlun verður framvegis einungis rekin sem verðbréfafyrirtæki. Enn fremur er lagt til að erlendum fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem heimilt er að veita þjónustu hér á landi verði gert að greiða fyrir leyfisbréf, enda verður að telja eðlilegt að jafnræði sé í gjaldtöku fyrir starfsleyfi innlendra og erlendra aðila.

Þá er lögð til breyting á leyfi fyrir áfengisveitingastað í stað þess að innheimta gjald fyrir leyfi til áfengisveitinga á bilinu 20.000--100.000 kr. eftir því til hve langs tíma leyfið er veitt eins og nú er. Lagt er til að það gildi annaðhvort til eins árs eða gildi til lengri tíma en árs en ekki lengur en til fjögurra ára. Jafnframt verður leyfisgjaldið hækkað þannig að gjald fyrir leyfi til eins árs verði 100 þús. kr. og leyfi til eins til fjögurra ára verði 200 þús. kr. Auk þess að greiða gjald fyrir áfengisveitingaleyfi greiða áfengisveitingastaðir nú eftirlitsgjald sem stendur undir kostnaði við eftirlit samkvæmt áfengislögum.

Nefnd um endurskoðun áfengislaga hefur lagt til að víneftirlit í núverandi mynd verði lagt niður og eftirlit með áfengisveitingum verði hluti af almennu starfi lögreglunnar. Sú hækkun á leyfi til áfengisveitingastaða sem hér er lögð til felur því einnig í sér eftirlitsgjald sem standi straum af kostnaði lögreglunnar við þetta eftirlit.

Það er ástæða til þess, virðulegi forseti, að árétta að hér er um nokkra breytingu að ræða og annar þáttur þeirrar breytingar mun koma fram í frv. sem hæstv. dómsmrh. hyggst flytja innan tíðar um breytingar á áfengislögunum sjálfum þannig að hér er um að ræða tilfærslu í gjöldum. Það skýrir að nokkru leyti þá hækkun sem verður á leyfi fyrir áfengisveitingastað. Enda er hugmyndin að leyfið kosti eftirlit með stöðunum. Telja verður þetta heppilegri aðferð en að vera með mörg mismunandi gjöld vegna starfseminnar og er þetta jafnframt til einföldunar í framkvæmd.

Í þriðja lagi er þess að geta að í frv. er lagt til að við VIII. kafla sem fjallar um ýmis vottorð og leyfi bætist tveir nýir töluliðir er varða annars vegar gjald fyrir leyfi til nafnbreytingar og í öðru lagi gjald fyrir vottorð um íslenskan ríkisborgararétt. Þetta bætist við VIII. kafla laganna.

Samkvæmt aukatekjulögum hefur verið innheimt gjald fyrir þessi leyfi og vottorð samkvæmt almennum ákvæðum laganna en æskilegt þykir að lögin geymi sérákvæði um þessi efni. Verið er að flytja til lagaákvæði.

Að lokum er lagt til að við lögin bætist nýr kafli sem fjallar um gjöld fyrir staðfestingu skipulagsskráa og birtingu reglugerða lífeyrissjóða. Samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfesti skipulagsskrá, nr. 19/1988, er dómsmrh. gert að staðfesta skipulagsskrár sjóða og sjálfseignarstofnana sé þess farið á leit að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samkvæmt sömu lögum skal birta staðfestar skipulagsskrár og breytingar á þeim í B-deild Stjórnartíðinda. Töluverð vinna hvílir á dómsmrn. við staðfestingu skipulagsskráa og hefur birting í Stjórnartíðindum eðlilega talsverðan kostnað í för með sér. Hingað til hefur ekkert gjald verið tekið fyrir þessa þjónustu, en það er talið eðlilegt að gjald sé lagt á hana svo sem tíðkast um aðra samsvarandi þjónustu ráðuneytisins og gerir frv. ráð fyrir að gjald fyrir staðfestingu á skipulagsskrám verði 5.000 kr. Enn fremur er lagt til að heimilað verði að krefja þá sem fá staðfesta skipulagsskrá um endurgreiðslu til ráðuneytisins vegna kostnaðar af birtingu skipulagsskrár í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, er fjmrh. gert að staðfesta reglugerðir lífeyrissjóða. Reglugerðirnar eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda og hefur kostnaður við birtingu þeirra verið umtalsverður. Þykir rétt að lífeyrissjóðir beri sjálfir kostnað af birtingu reglugerða sem frá þeim koma og er því lagt til í frv. að lífeyrissjóðir endurgreiði fjmrn. kostnað af birtingu reglugerðar lífeyrissjóða í Stjórnartíðindum.

Ég vil aðeins geta þess að lokum að á sínum tíma voru þessar tekjur byggðar á ákvæðum í reglugerð sem gefin var út af fjmrn. en á árinu 1991 var aflað lagaheimilda. Tryggara þótti að afla lagaheimilda vegna stjórnarskrárbreytingar. Þær upphæðir sem hér er um að ræða hafa yfirleitt ekkert breyst frá þessum tíma þannig að búast má við að á nokkurra ára fresti þurfi til þess að koma að gera breytingar á fjárupphæðum laga af þessu tagi.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.