Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 15:36:18 (1814)

1997-12-08 15:36:18# 122. lþ. 37.5 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:36]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Aðeins kannski örfá orð inn í þessa umræðu. Þetta frv. til laga um aukatekjur ríkissjóðs lætur kannski ekki mikið yfir sér og virðist í fljótu bragði vera eðlileg framkvæmd hækkana með tilliti til verðlags. En ég vil þó taka undir þau orð sem hér hafa fallið um það hverjir koma til með að bera þessi gjöld sem um er að ræða.

Í 1.--8. gr. er verið að leggja til 15% hækkun á dómsmálagjöldum og rökin eru að rekstrarkostnaður héraðsdómstóla hafi hækkað um 21%. Það var gert ráð fyrir 100 millj. kr. tekjuauka af þessum völdum. Ég tel, herra forseti, að þessar hækkanir muni lítillega hafa áhrif á almennt verðlag. Það er eðlilegt, hæstv. fjmrh., að gera þeim aðilum sem að þessum rekstri standa að sýna aðhald og sparsemi og það er eðlilegra að hækkanir eins og hér um ræðir komi miklu jafnara inn, t.d. þegar hækkunar er þörf, um t.d. 5% í hvert sinn, í staðinn fyrir að fara í svona slumphækkanir á einhverju árabili eins og verið er að gera hér. Þessi vinnubrögð eru mér á móti skapi. Ég tel að þetta eigi að gerast öðruvísi. Og ég sé að hæstv. fjmrh. er sammála mér að þetta eigi að fylgja jafnara fram.

En þar að auki er settur inn, eins og hér kom fram áðan, nýr tekjuauki fyrir ríkissjóð. Þá er ég að vitna til bæði 9., 10. og 11. gr. þar sem um er að ræða í 11. gr. gjöld fyrir skipulagsskrár og birtingu reglugerða lífeyrissjóða. Ég býst svo sem við að þær hækkanir sem um er að ræða fari í gegn þó svo ég sé með þessar athugasemdir hér. En ég er fyrst og fremst að vekja athygli á því að það er óeðlilegt að setja þetta inn á þennan veg og gera þetta með svo löngu millibili. Það á að miða við að þegar meðaltalshækkanir á neysluverðsvísitölu og launaverðsvísitölu eru 10%, þá ætti þetta að koma inn sem eðlileg hækkun. Þannig lít ég á þetta.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hverjar eru áætlaðar heildartekjur eða heildartekjuauki ríkissjóðs í tengslum við þetta frv.? Það er gert ráð fyrir 100 millj. kr. varðandi 1.--8. gr. En hver er heildin og á hverjum lenda þessi gjöld eða gjaldahækkanir, hæstv. fjmrh.?

Ég ætla að láta þetta nægja í umfjöllun um málið, en mér finnst óeðlilegt, herra forseti, hvernig þetta ber að. Það á að bera að þegar tilefni eru til eins og varðandi aðrar tekjur ríkissjóðs og gjöld sem á að greiða til ríkissjóðs á einhvern hátt.