Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 15:39:51 (1815)

1997-12-08 15:39:51# 122. lþ. 37.5 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:39]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að fjalla örlítið um hin svokölluðu dómsmálagjöld, en í því frv. sem hæstv. fjmrh. hefur nýverið mælt fyrir, um aukatekjur ríkissjóðs, kemur fram að ætlunin er að ná um það bil 100 millj. kr. tekjum í ríkissjóð vegna hækkana á dómsmálagjöldum og það er rökstutt eins og segir hér í greinargerð, virðulegi forseti, að:

,,Frá árinu 1993 sem er fyrsta heila árið eftir aðskilnað dóms- og framkvæmdarvalds hefur rekstrarkostnaður héraðsdómstóla hækkað úr 281.000 þús. kr. í 341.000 þús. kr. árið 1996 ...``

Ég held, virðulegi forseti, að við deilum ekki um það hér að eitt af meginhlutverkum ríkisins er að reka dómstóla. Þetta er einn af þremur þáttum ríkisvaldsins og ég held að um það sé ekki deilt að þessi kostnaður á að sjálfsögðu að hvíla á ríkinu. Þess vegna er dálítið eftirtektarvert að skoða hvað ríkissjóður hafði í tekjur af dómsmálagjöldum fyrir árið 1996. En þar kemur fram að ríkissjóður hafði í tekjur 660 millj. kr. sem má leggja út þannig að ríkið hafi hagnast um sem nemur 320 millj. kr. á rekstri dómstóla í landinu. (Gripið fram í: Og lögbrotum.) Dómsmálagjöld eru sem sagt 320 millj. kr. hærri en kostnaður við að reka héraðsdómstólana. Ég segi það alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég gat ekki ímyndað mér að dómstólakerfið í landinu væri rekið sem einhvers konar hagnaðarfyrirtæki. Það er kannski 15% arðsemiskrafa á dómstólnum. Það skyldi þó ekki vera, eins og á Pósti og síma, að það sé um það bil 15% arðsemiskrafa. Ég held, virðulegi forseti, að rökstuðningur af þessu tagi sé aðeins til þess fallinn að gera það tortryggilegt þegar menn koma fram með slíkar tillögur.

Hverjir eru það svo sem borga þessi gjöld? Hverjir skyldu það nú vera? Það eru þeir sem eru að leita réttlætisins fyrir dómstólum. Það eru þeir sem greiða þessi gjöld. (Gripið fram í: Það er dýrt réttlætið.) Dýrt er nú réttlætið. Héraðsdómstólar í landinu eru reknir með 320 millj. kr. hagnaði sem er um það bil 100% arðsemi því að þetta er um það bil 100% umfram það sem héraðsdómstólarnir kosta þannig að það er nokkuð merkilegt sem hér kemur fram.

Ég held að réttlætisgjöld af þessu tagi hljóti að vera tímaskekkja og ef ríkissjóður er að leita sér tekna og leggja þetta á þá einstaklinga sem leita sér réttlætis fyrir dómstólum, þá held ég að það sé ríkinu hreinlega til vansa því þetta er einn af meginþáttum ríkisvaldsins og við hljótum að geta rekið þetta án þess að gera einhverja arðsemiskröfu á dómstólana. Og mér finnst hálfsorglegt, virðulegi forseti, að fjmrh. skuli vera að koma með þessar tillögur hér fram og rökstuddar þannig að rekstrarkostnaður héraðsdómstóla hafi hækkað um 21% á einhverju árabili. Þetta er sorglegt, virðulegi forseti, og ber ríkisstjórninni mjög slæmt vitni.