Aukatekjur ríkissjóðs

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 15:57:24 (1818)

1997-12-08 15:57:24# 122. lþ. 37.5 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:57]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi nú bara að ég er tilbúinn til þess að skoða alla hluti en í því felst engin yfirlýsing um að eitthvert samkomulag geti náðst. Ég minni á að á árunum 1990 og 1991 þegar þessi gjöld voru sett á þá sátum við, a.m.k. að hluta til, saman í ríkisstjórn ég og hv. þm. og þá þóttu þessi gjöld vera svona sæmilega metin og það var samþykkt af þáv. ríkisstjórn. Hér er einungis verið að færa þetta upp til nýs verðlags en þó hvergi nærri því sem nemur hækkun launa á þessum tíma. Ég vil minna á að aðfarargjöldin og nauðungarsölugjöldin voru auðvitað sett á á sínum tíma og hækkuð til þess að fæla frá þá kröfuhafa sem vildu ganga að fólki án þess að það væri kannski nokkuð að hafa af þessu fólki eða lítið þannig að það eru tvær hliðar á þessu máli. Við megum ekki gleyma því. Það er ekki bara hægt að taka málið upp eins og þetta snúi eingöngu að þeim sem eru þolendur í þessu kerfi.

Varðandi nýsett lög um tekju- og eignarskatt þá er eðlilegt að miða við þá reynslu sem fæst af þeim lögum fyrstu árin. Það er ekki komin löng reynsla. Það verður kannski eftir 1--2 ár. Þá finnst mér eðlilegt að fjmrn. og Ríkisendurskoðun setjist yfir þessa löggjöf og kanni hver niðurstaðan hafi orðið og hvort ástæða sé til þess að breyta og hvernig breytingin ætti að vera án þess að við röskum grundvallarreglunni sem er jafnræðisreglan.