Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 18:37:16 (1865)

1997-12-08 18:37:16# 122. lþ. 37.9 fundur 330. mál: #A lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (uppgjör á skuldbindingum, iðgjöld til B-deildar) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[18:37]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég byrja á að gera að umræðuefni staðhæfingar hv. þm. Péturs Blöndal og hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur. Ég tek undir ummæli þess síðarnefnda. Hv. þm. Pétur Blöndal telur að kennarastéttinni hafi verið að áskotnast mikil auðævi í nýgerðum kjarasamningum og mátti skilja á máli hans að það hefði væntanlega verið mikill gróði fyrir þjóðfélagið allt og sérstaklega Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins ef unnt hefði verið að halda þessum launahækkunum eitthvað niðri, ég tala ekki um ef kjörin hefðu staðið í stað eða launin lækkað. Þá hefðu væntanlega allir hagnast. Ætli það sé ekki hagnaður fyrir þjóðfélagið ef það tekst að laga þessi laun eitthvað og mætti gera miklu meira en þegar hefur verið gert. Þótt ekki sé hugsað um annað en að einhverjir kennarar verði til að kenna börnum, unglingum og öðrum nemendum í framtíðinni.

Ég tek einnig undir það sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir sagði að það hefði verið ókostur við marga kjarasamninga liðinna ára og áratuga að ekki hefði verið samið um almennar taxtahækkanir í ríkari mæli en gert hefur verið vegna þess að lífeyrisþegarnir hafa verið hlunnfarnir.

Það er svo aftur alveg rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að auðvitað þýddu slíkar launabreytingar auknar klyfjar á lífeyrissjóðinn. Ein ástæðan fyrir því að menn vildu ráðast í þær breytingar sem gerðar voru á síðasta ári var einmitt sú að færa lífeyrissjóðinn inn í samtímann, nútímann og framtíðina, að því leyti að jafnan skyldu standast á greiðslur inn í sjóðinn og út úr sjóðnum. Menn stóðu í miklu stríði í þingsal og utan þings um hversu hátt iðgjaldið ætti að vera. Við sem vildum tryggja fullorðnu fólki, lífeyrisþegum, sæmilegan lífeyri vorum á því máli að þessar greiðslur ættu að vera í hærri kantinum. Þess vegna studdum við þær lagabreytingar sem gerðar voru.

Um lagabreytingarnar á síðasta ári náðist sæmileg sátt. Þó eru þar örfáar undantekningar. Ég minnist þess að hv. þm. Pétur Blöndal var á öndverðum meiði en meðal þorra þingmanna og í þjóðfélaginu almennt ríkti sæmileg sátt um breytingarnar. Sá skilningur var yfirlýstur af hálfu hæstv. fjmrh. að ekki yrði ráðist í lagabreytingar, breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nema að höfðu samráði við samtök þeirra. Þegar samtök launafólks innan opinbera geirans, sem eiga aðild að þessum lífeyrissjóði, óskuðu eftir lagabreytingu fyrr á þessu hausti, þess efnis að dagsetningunni 1. desember þar sem mönnum var gert skylt að færa sig milli deilda, A-deildar og B-deildar lífeyrissjóðsins, ef þeir á annað borð ætluðu að færa sig, yrði frestað þá neitaði hæstv. fjmrh. þessu staðfastlega og sagði að hann vildi ekki láta taka upp neinar greinar í lífeyrissjóðnum og báðir aðilar þyrftu þá að vera sammála um slíkt og að hann væri ekki á því máli.

Nú kemur hins vegar fram frumvarp til laga um breytingu á þessum sömu lífeyrislögum. Nú skal strax tekið fram að í þeim breytingum sem eru til umfjöllunar stendur ekki til að hreyfa við kjörum lífeyrisþega. Hins vegar vil ég nota þetta tækifæri við 1. umr. málsins og benda á þessi vinnubrögð og benda á að samtökum þeirra launamanna sem eiga aðild að þessum sjóði bárust drög að frumvarpinu með myndsendingu 3. desember og var boðað til fundar tveimur dögum síðar, 5. desember, að því er menn töldu þá, til þess að ræða þessar fyrirhuguðu lagabreytingar. Á þeim fundi var mönnum hins vegar kynnt að málið hefði þegar verið samþykkt í ríkisstjórn og komið til Alþingis.

Þetta lagafrumvarp á eftir að skoða nánar og sérstaklega þarf að líta á hvaða nauðsyn knýr fjmrh. og ríkisstjórn að leggja frumvarpið fram. Hvaða nauðsyn er á þessu frumvarpi yfirleitt. Talað er um uppgjörsmáta á skuldbindingum einstakra stofnana gagnvart sjóðnum en ég fæ a.m.k. ekki séð við fyrstu sýn að til þess að þær breytingar nái fram að ganga þurfi að gera breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins heldur snúi þetta fyrst og fremst að uppgjörsmáta stofnana. Síðan þarf að skoða rækilega hvaða áhrif það kynni að hafa á stofnanir, að knýja fjárvana stofnanir á borð við skóla, sjúkrahús og aðrar að inna greiðslur af hendi á annan hátt og hraðari en hefur verið. Eins og ég segi er það nokkuð sem þarf einfaldlega að skoða og setjast yfir. Á þessu stigi vildi ég fyrst og fremst vekja athygli á þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh. í málinu og benda á að þar er ekki samræmi í hlutunum þegar þetta frumvarp er uppi og hins vegar óskir sem komu frá samtökum launafólks um að gerðar yrðu breytingar á dagsetningunni 1. desember síðastliðnum.