Fyrirhuguð frestun skattalækkunar

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 13:35:54 (1870)

1997-12-09 13:35:54# 122. lþ. 38.88 fundur 121#B fyrirhuguð frestun skattalækkunar# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[13:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það var hermt rangt í upphafi orða hv. þm. Skattalækkun var ekki samkomulag við aðila vinnumarkaðarins eins og mönnum er kunnugt um. Alþýðusambandið vildi fara nokkuð aðra leið í skattalækkunarferlinu en ríkisstjórnin vildi fara þannig að að ríkisstjórnin bæri ein ábyrgð á þeirri skattalækkunaraðferð sem ákveðin var eins og menn muna, svo að það sé nú haft rétt sem forsenda málsins.

Í annan stað var ekki talað um að fresta þessari skattalækkun allri heldur aðeins hluta hennar eins og kom fram í gær að hefði verið athugað. Það er jafnframt rétt að menn átti sig á því að í tengslum við framlagningu málsins var sérstaklega tekið fram að gert væri ráð fyrir því að sveitarfélögin kæmu að 1/10 að þessari lækkun, 1/10 vegna þess að sveitarfélögin nytu góðs af hinum löngu kjarasamningum og þeim stöðugleika sem skapaðist í þjóðlífinu vegna þeirra og jafnframt tekið fram að ef það yrði ekki, þá yrði ríkið að bera þá lækkun en jafnframt yrði leitað eftir því að þeir fjármunir sem ríkið stæði þar með að skiluðu sér í viðskiptum ríkis og sveitarfélaga þannig að þetta lá allt saman fyrir. Það þótti því ekki óeðlilegt við þessar aðstæður þegar ekki hafði náðst samkomulag við sveitarfélögin m.a. vegna þess að kostnaður þeirra við gerð eigin kjarasamninga varð meiri en ætla hefði mátt af því að þeir voru ekki í samræmi við það sem áður hafði gerst á vinnumarkaði að þetta væri tekið til athugunar og skoðunar og rætt. Í dag hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar, hæstv. fjmrh., hæstv. viðskrh. og ég, átt fund með Alþýðusambandinu og forustu þess og munum við athuga málið á vettvangi ríkisstjórnarinnar í dag í framhaldi af þeim fundum og kynna niðurstöður okkur þegar líður á daginn.