Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 14:31:16 (1884)

1997-12-09 14:31:16# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil byrja á að spyrja að því hvort einstakir hæstv. ráðherrar, sem eiga efnivið í þessu frv., þó að mér sé ljóst að það sé flutt af hæstv. forsrh., þar sem um bandorm er að ræða, verði að einhverju leyti viðstaddir. Mér er þá ofarlega í huga til að mynda hæstv. heilbrrh. og hæstv. samgrh. og jafnvel hæstv. félmrh. sem allir eiga hér mál við.

Það er eins og venjulega, herra forseti, þegar kemur fram í desembermánuð að eitt af okkar verkefnum er að ræða bandorm frá hæstv. ríkisstjórn um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Að vísu vakti hæstv. forsrh. athygli á þeirri gleðilegu staðreynd að hann væri nú með styttra móti og greinafjöldinn væri á niðurleið. Það er vissulega gleðileg þróun og vonandi gengur hún alla leið til enda þannig að innan fárra ára verði hér enginn bandormur á ferð og málum öðruvísi fyrir komið.

Ekki er nokkur vafi á því að ný lög um fjárreiður ríkisins hafa hér áhrif til bóta og frágangur og meðferð þessara mála er á réttri leið. Það breytir hins vegar ekki hinu, herra forseti, að margt vekur athygli í efni þessa frv., ekki síst í ljósi linnulausra yfirlýsinga hæstv. ríkisstjórnar um góðærið, um hversu glæsilega hafi til tekist á fyrri hluta kjörtímabilsins og hversu bjartar horfurnar séu. Einhver hefði þá látið sér detta í hug að það þyrfti alls engar ráðstafanir af þessu tagi, sultar- og niðurskurðarráðstafanir í hefðbundnum stíl. Þess meiri athygli vekur það að þrátt fyrir allt góðærið er gengið lengra í niðurskurði til margra brýnna verkefna en áður hefur verið gert, í þrengingunum miðjum. Nú er til að mynda þjarmað meira að Framkvæmdasjóði fatlaðra en nokkru sinni fyrr í sögunni. Og það er skorið meira niður af mörkuðum tekjum til vegagerðar en nokkru sinni fyrr. Maður hlýtur að spyrja sig: Þarf virkilega að gera þetta nú í miðju góðærinu og þrátt fyrir hinn glæsta árangur og hinar björtu horfur sem oddvitar stjórnarflokkanna boðuðu á sérstökum blaðamannafundi í ráðherrabústaðnum ekki fyrir löngu síðan? Mér skilst að út hafi komið skrautrituð bók, gott ef ekki er, með gulldregnum kili þar sem lýst er hinum mikla árangri. Það hlýtur að koma undarlega fyrir sjónir fatlaðra t.d. eða þeirra sem veita forustu fyrir þeim málaflokki að sjá þessa útreið á framkvæmdasjóðnum sem hér er boðuð.

Ég vil segja einnig, herra forseti, að það er að mínu mati algjörlega óhugsandi að við ljúkum umfjöllun um þessi efnahagsmál, og í raun og veru þessari umræðu í dag eða á morgun eða nær henni lýkur, sem tengist fjáraukalögum eða ráðstöfunum í ríkisfjármálum, fyrr en niðurstaða er komin í því máli sem hér hefur í tvígang verið til umræðu, í gær og í dag, og varðar loforð hæstv. ríkisstjórnar um skattalækkanir í tengslum við gerð kjarasamninga. Það er óhjákvæmilegt að við fylgjumst með hvernig því máli lyktar ef niðurstöður fást í því í dag.

Þá vil ég snúa mér að efni bandormsins sérstaklega og fara þar grein af grein. Í fyrsta lagi er þar um að ræða hefðbundna, en þó sennilega heldur meiri en venjulega, skerðingu á framlögum til endurbóta menningarbygginga eins og það heitir nú. Vera kann að ekki séu svo knýjandi verkefni á því sviði akkúrat í augnablikinu að það sé réttlætanlegt að verja ekki meiri fjármunum en þarna eru á ferðinni í því sambandi. Ég verð þó að leyfa mér að segja að ég held að ærið oft hafi menn verið að spara eyrinn og kasta krónunni þegar menn hafa dregið úr hömlu að veita t.d. opinberu húsnæði eðlilega athygli og að það fengi fullnægjandi viðhald. Ætli það hafi ekki reynst t.d. lærdómurinn á Bessastöðum að það hafi mátt spara mikla fjármuni ef húsnæðið þar hefði fengið eðlilegt viðhald á undanförnum árum en ekki verið jafnhroðalega illa á sig komið þegar loksins var farið í að sinna því eins og raun ber vitni. Mér er ekki kunnugt um annað en að eitt af þeim stóru verkefnum sem fram undan eru á þessu sviði sé húsnæði Þjóðminjasafnsins og ég vil spyrja hæstv. forsrh. að því hvort ekki sé ærin þörf á að ráðstafa öllum þeim fjármunum sem menn telja mögulega hægt að veita til þess verkefnis í það verk og önnur slík á næstu árum.

Í öðru lagi hefur þegar verið komið inn á 2. gr. af öðrum ræðumönnum. Ég vil segja um það aðeins að litlu verður Vöggur feginn, að menn skuli telja það taka því, liggur mér við að segja, að reyta helminginn af þessu framlagi til átaksverkefnis um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Það var ekki miklu til að skipta þar. En það á að helminga þetta framlag upp á 25 millj. kr. sem tekin var ákvörðun um að setja tímabundið til einhverra ára í átak á þessu sviði. (Gripið fram í: Fimm ára.) Til fimm ára. Og er nú dálítið annað en að skerða ótímasett lögbundið framlag eða markaðan tekjustofn. Hér er um sérstakt tímabundið átak að ræða sem átti að vera í takt við áherslur og pólitík á þessu sviði. Mér finnst það satt best að segja heldur nánasarlegt að geta ekki einu sinni látið þetta í friði og vera að reyta þarna af þessum lið 12,5 millj. kr.

Í þriðja lagi hef ég nefnt stöðu Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Ég er ekki viss um að allir átti sig á því hvernig hlutföll eru orðin þar, að aðeins 185 millj. kr. af talsvert yfir 400 millj. sem eru þarna í tekjur af erfðafjárskatti á að ráðstafa til hefðbundinna framkvæmdaverkefna á sviði Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Það er komið langt niður fyrir helming af hinum mörkuðu tekjum sem þarna eiga að vera til ráðstöfunar. Nú er enginn vafi á því að Framkvæmdasjóður fatlaðra lyfti grettistaki á sínum tíma og það var gríðarleg framför í málefnum fatlaðra á fyrstu árunum eftir að sjóðurinn kom til sögunnar. Það kann að vera rétt og menn út af fyrir sig hafa ekki deilt um það, að á einhverju stigi málsins yrði uppbyggingin svo vel á veg komin að réttlætanlegt gæti verið að færa tekjur úr framkvæmdum yfir í rekstur. Það hefur gerst á fleiri sviðum, eins og ég veit t.d. að hæstv. samgrh. man eftir. Þegar uppbyggingu einhverra málaflokka er vel á veg komið, þá getur verið réttlætanleg áhersla að færa fé úr fjárfestingum yfir í rekstur því að það þarf að reka þær stofnanir sem búið er að byggja upp. En ég leyfi mér að fullyrða að nú er að síga á ógæfuhliðina á nýjan leik. Það er enginn vafi að Íslendingar eru til að mynda farnir að dragast aftur úr hinum Norðurlöndunum á nýjan leik hvað varðar aðbúnað að fötluðum. Við vorum auðvitað á hálfgerðu steinaldarstigi í þeim efnum þegar uppbyggingin fór af stað í kjölfar þess að Framkvæmdasjóður fatlaðra kom til sögunnar og þessi mál voru í hreinasta ólestri hér borið saman við t.d. hin Norðurlöndin. Það nægir að nefna aðgengismálin ein og sér í því sambandi. Þar hafa vissulega orðið framfarir en það er langt í land að þessum málum sé alls staðar sómasamlega fyrir komið á Íslandi og ég harma það að þessi hlutföll skuli vera orðin svona öfug eins og þau þarna eru, að það er orðinn mikill minni hluti fjárins sem rennur til eiginlegrar uppbyggingar og eiginlegra úrbóta. Mestur hlutinn rennur í reksturinn í reynd sem skattur í ríkissjóð.

Þá um 5.--7. gr. Þar er verið að fjalla um Atvinnuleysistryggingasjóð og nú væri æskilegt að hæstv. félmrh. væri hér til skoðanaskipta um þau mál eins og frammistaða hæstv. ráðherra hefur verið í þeim efnum. Herra forseti. Það er algerlega óhjákvæmilegt að fá hér á einhverju stigi málsins rækilega umræðu um frammistöðu hæstv. félmrh. í málefnum atvinnulausra og þar með talið líka hér hvernig farið er með Atvinnuleysistryggingasjóð.

(Forseti (RA): Forseti vill láta þess getið að hæstv. félmrh. og hæstv. heilbrrh. boðuðu fjarvist meðan jarðarför færi fram og eru báðir væntanlegir, innan tíðar.)

Ég þakka hæstv. forseta. Mér er þetta ljóst og ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemdir við það þó að hæstv. ráðherrar eða aðrir þingmenn séu tímabundið fjarverandi af þessum sökum, enda er ég hér að tala um að við vel valið tækifæri gefist kostur á að ræða þetta mál við hæstv. félmrh. Að vísu er komin fram hér fyrirspurn þar sem spurst er fyrir um frammistöðu hæstv. ráðherra hvað varðar breytingar á lögum og reglum um atvinnuleysistryggingar á síðasta ári. Það hefur allt verið með miklum endemum. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. félmrh. sé hér að bera ákaflega skarðan hlut frá borði og þar með talið að í þessu frv. eru ekki neinar breytingar gerðar á þeirri viðmiðun atvinnuleysisbóta við launaþróun í landinu sem var aftengd með breytingunum 1996 og að hluta til eða a.m.k. að nafninu til er verið að setja hér inn til baka hvað varðar almannatryggingarnar. Þar er hæstv. félmrh. algerlega úti í kuldanum um sín mál og réttur atvinnulausra fyrir borð borinn umfram það sem er með aðra lífeyrisþega, ef marka má niðurstöðu þessa bandorms.

Þá, herra forseti, kem ég að 8.--11. gr. frv. sem að mínu mati eru langalvarlegustu ákvæði þessa máls vegna þeirra blekkinga sem uppi hafa verið hafðar í því máli. Þannig var að hæstv. ríkisstjórn, í nafni þess að afnema alla sjálfvirkni eins og það var kallað, ákvað á árinu 1995, og það kom til framkvæmda á árinu 1996, að tenging bóta almannatrygginga við vikukaup í almennri verkamannavinnu var afnumin, en slík tenging hafði verið við lýði um langt árabil og hafði tryggt þessum hluta landsmanna sambærilegar kjarabætur og um sömdust á almennum vinnumarkaði fyrir tilteknar viðmiðunarstéttir. Þá fundu menn upp á því snjallræði í áróðursstríðinu að kalla þetta sjálfvirkni og þetta voðalega orð, þessi hryllilega ,,sjálfvirkni`` var bara réttdræp þannig að það tókst með áróðursframsetningu að selja mönnum að þetta réttlætismál og þetta skynsamlega og sanngjarna fyrirkomulag, að lífeyrisþegarnir í landinu nytu kaupmáttaraukningar eða launaþróunar til jafns við aðra, væri alveg sérstakt vandamál af því að það héti sjálfvirkni og svoleiðis vilja menn ekki hafa núna í anda nýfrjálshyggjunnar. Og þá er auðvitað réttur atvinnulausra og réttur lífeyrisþega lítils virði samanborið við hið heilaga stríð gegn sjálfvirkninni. Það verður þá að hafa það þó það verði að fórna því á altari þeirrar orrustu. Og ríkisstjórnin böðlaði þessu í gegn hér við afgreiðslu mála fyrir jólaleyfi 1995.

Nú ber svo við að almenningur og sérstaklega þá auðvitað lífeyrisþegar hafa ekki verið þeirrar sömu skoðunar að þetta væri svona skaðlegt. Fyrst og fremst hafa þeir þó verið þeirrar skoðunar að það sé sanngjarnt að þeir fái sinn hluta af góðærinu eins og aðrir og það hefur myndast mikill þrýstingur úti í þjóðfélaginu að þetta verði að leiðrétta. Og hann gengur svo langt þessi þrýstingur og samtök aldraðra að jafnvel eru hótanir um klofning og framboð við næstu alþingiskosningar og guð má vita hvað, að það hleypur hland fyrir hjartað á forustunni í Sjálfstfl., hún gerir menn út af örkinni til að stofna sérstök samtök aldraðra í þeim flokki og valdir menn eru settir þar í forustu til að hafa nú hlutina undir stjórn eins og sagt er og ríkisstjórnin gefur út þá yfirlýsingu að hún ætli að setja þessa tengingu í samband á nýjan leik. Það brýst út mikill fögnuður og leiddir eru fram mætir menn til þess að vitna um göfgi ríkisstjórnarinnar, að hún ætli nú að verða við þessum kröfum aldraðra. En hvað kemur svo á daginn þegar textinn birtist hér? Hvað kemur þá á daginn, herra forseti? Það kemur á daginn að þetta eru tómar blekkingar, ekkert annað en blekkingar vegna þess að þetta er ekki sett í samband. Það segir samkvæmt orðanna hljóðan hins vegar að það skuli taka mið af launaþróun. Það er nánast sama orðalagið og var í greinargerð með frv. sem breytingarnar voru í í desember 1995 þannig að í raun og veru er ekki verið að segja neitt nýtt þar. Menn skutu sér á bak við það að segja að þetta eigi ekki að vera sjálfvirk tenging en mun auðvitað taka mið af launaþróun og taka mið af breytingum í efnahagsmálum í landinu. Það var sagt 1995 þannig að hér er ekki verið að segja neitt nýtt. Síðan er að vísu sagt að þetta skuli þó þannig framkvæmt að lífeyririnn hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

[14:45]

Það er rétt að fjalla um hlutina efnislega eins og þeir liggja fyrir, það er rétt. Í þessu gæti hugsanlega við vissar aðstæður falist ákveðin trygging en þá og því aðeins að umsamin laun, hækkun umsaminna launa í landinu sé undir verðlagsþróun, menn semji um kjararýrnun. Þess eru ekki mörg dæmi að það gerist. Það þarf að fara langt aftur til að finna slíka hluti og alla vega er ekki líklegt að reyna muni á þetta ákvæði ef launaþróunin verður eins og nú hefur verið samið um fram á byrjun næstu aldar og hlutirnir ganga eftir eins og fyrir er spáð. Þá er þetta ákvæði marklaust, út í bláinn, þó það gæti hugsanlega, fræðilega séð, falið í sér tryggingu.

En það er annað, herra forseti, í þessum blekkingum sem ég tel alvarlegra og það er að þveröfugt við það sem sagt er að með breytingunum nú sé verið að færa á nýjan leik til baka auknar tryggingar fyrir lífeyrisþega, þá er verið að aftengja sjálfvirka uppfærslu bóta með nýjum hætti. Það er gert með því að fara inn í tvær aðrar greinar í lögunum um almannatryggingar sem ekki var búið að hrófla við áður. Það eru frítekjumörkin í 17. gr. og meðlögin í 59. gr. Þannig að algjörlega öfugt við það sem ríkisstjórnin var að segja á dögunum í áróðursyfirlýsingu sinni, þá eru til viðbótar teknar af tryggingar sem ekki var hróflað við 1995. Það er gert með því eins og segir í athugasemdum um 8.--11. gr. að því sé ,,lagt til að 2. mgr. 18. gr. laganna falli brott``. Hvað er 2. mgr. 18. gr. laganna, um almannatryggingar, laga nr. 117 frá 20. desember 1993, eins og þau eru víst númeruð núna? Jú, herra forseti, hún fjallar um öll frítekjumörkin, allar bótafjárhæðirnar í 17. gr. Í 2. mgr. 18. gr. segir:

,,Með reglugerð skal fjárhæðum 17. gr. breytt 1. september [sú breyting var gerð 1994] árlega til samræmis við almennar hækkanir bóta og annarra tekna milli ára.``

Þetta tryggði sjálfvirkt að frítekjumörkin fylgdu bótahækkununum. Þetta ákvæði er tekið út núna. Og hvað kemur í staðinn? Ákvörðun um þetta sama atriði í hverju einustu fjárlögum. Með öðrum orðum ríkisstjórnin færir þetta yfir í geðþóttaákvörðun á hverju ári og svo eru menn að selja mönnum þetta og þar með talið lífeyrisþegunum í landinu sem aukna tryggingu. Þetta er þveröfugt. Þarna er verið að auka möguleika ríkisstjórnar eða meiri hlutans á hverju einasta ári til að valsa með þessar fjárhæðir og ákveða það samkvæmt geðþótta við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni. Og nákvæmlega sama er á ferðinni í 59. gr. en þar er þessu breytt þannig með breytingum á lagagrein sem kemur aftar, þ.e. 65. gr., og ég vek athygli á því að 59. gr. fjallar um barnsmeðlög og upphæðir bóta sem þar eru á ferðinni, en í 65. gr. segir:

,,Nú verður breyting á vikukaupi í almennri verkamannavinnu og skal ráðherra þá innan sex mánaða breyta upphæðum bóta samkvæmt lögum þessum og greiðslum skv. 59. gr. í samræmi við það.``

Þessar lagagreinar, 59. og 65., tryggðu sams konar sjálfvirka uppfærslu þessara bóta og allur lífeyririnn tók áður. Með öðrum orðum hér er verið að aftengja þá tryggingu sem ekki var hróflað við 1995 og auka svigrúm ríkisstjórnar og meiri hlutans hverju sinni til geðþóttaákvarðana í þessum efnum. Og hvað er það þá, herra forseti, annað en blekkingar að reyna að selja þetta samtökum aldraðra, öryrkja eða öðrum, sem þessar ráðstafanir voru kynntar fyrir, sem auknar tryggingar á nýjan leik í anda þess sem var fyrir breytingarnar 1995/1996? Það eru blekkingar, ekkert annað en blekkingar. Og það er miður að menn skyldu ekki athuga betur efni þessa máls áður en menn ruku upp til handa og fóta, sumir hverjir, og fögnuðu þessu sem einhverju jákvæðu skrefi. Það er því miður ekki neinu slíku til að dreifa. Þetta er í raun og veru fyrst og fremst áróðursleikur og flugeldasýning sem hæstv. ríkisstjórn hefur haft þarna í frammi.

Að síðustu, herra forseti, er óhjákvæmilegt að gagnrýna mjög harðlega útkomu Vegagerðarinnar og þá miklu skerðingu á mörkuðum tekjum til vegamála sem er á ferðinni í 13. gr. frv. Nýtt Íslandsmet er slegið í því að taka yfir 1 milljarð kr. af mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar og láta renna í ríkissjóð í miðju góðærinu og við þær aðstæður að hæstv. samgrh. er að baksast með vegáætlun einhvers staðar í skúmaskotum hér á bak við tjöld og hefur ekki komið henni fram og átti það þó að vera eitt af forgangsmálum. Mig minnir að hæstv. ráðherra hafi lofað að vegáætlun yrði eitt af fyrstu málum þessa þings og ég spurði hann að þessu snemma í október og þá sagði hann: Hún er alveg að koma. Nú er kominn 9. desember og af því heyrist að þessi veg\-áætlun sé í einhverjum hremmingum á bak við tjöld. (Gripið fram í: Árið er nú ekki búið.) Og áður en hún er komin fram eru einstakir hv. þm. stjórnarliðsins farnir að sverja hana af sér, meira að segja vígðir menn því hv. þm. séra Hjálmar Jónsson kom í útvarpið fyrir nokkrum dögum og þó algerlega hendur sínar af þeirri vegáætlun sem þó er ekki komin fram. Þannig er nú staðan í því máli. Við þær aðstæður (Forseti hringir.) fær hæstv. samgrh. það í andlitið að reita á af honum meira en 1 milljarð kr. af mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar í ríkishítina á næsta ári. Þetta er hroðaleg útkoma, herra forseti, og það er von að hæstv. samgrh. sé dálítið ruglaður í ríminu þessa dagana. Ég verð að segja það.