Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:06:00 (1896)

1997-12-09 17:06:00# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom fyrr í dag var full ástæða til þess fyrir ríkisstjórnina að athuga það sérstaklega vegna afstöðu sveitarfélaganna hvort fresta bæri hluta af skattalækkunaráformum til næsta árs. Þetta mál hefur í dag verið til athugunar á vegum þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar, hæstv. fjmrh., hæstv. viðskrh. og mín. Í ljósi þess að sú niðurstaða hefur náðst að mál þetta skuli vera á dagskrá samræðna sveitarfélaganna og ríkisins á næstunni og með hliðsjón af samtölum okkar við aðila vinnumarkaðarins þá teljum við ekki ástæðu til að setja fram með föstum hætti þá ákvörðun að fresta þessum þætti skattalækkunarinnar. Skattalækkunin verður þá í vor sú hin sama 1,9% og menn höfðu áður gert ráð fyrir.

Ástæða er til að taka það fram að ég tel að í samræðum við forustumenn Alþýðusambandsins í dag hafi komið fram að á þeim vettvangi sé góður skilningur á því að auðvitað ættu sveitarfélögin sem og ríkið að taka þátt í þessu skattalækkunarferli. Ég tel þýðingarmikið að sveitarfélögin samkvæmt samkomulagi við forustumenn þeirra vilji hafa þau mál á viðræðuvettvangi ríkis og sveitarfélaga. Þannig að það mun ekki koma fram tillaga um að þessum hluta skattalækkunarinnar verði frestað.