Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:31:03 (1931)

1997-12-09 21:31:03# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti, það kemur fyrir bestu menn að mistala sig, jafnvel misstíga sig í ræðustól, en það sem ég sagði og hv. þm. vitnaði til sagði ég nú ekki í þeirri ræðu sem hann var að veita andsvar við, heldur er hann kominn í andsvar við andsvar sem ég veitti hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur. Nákvæmlega út af þessu sem hv. þm. Jón Kristjánsson sagði, þá vil ég segja eftirfarandi: Það er rétt. Fjármagnið til heilbrigðiskerfisins er að aukast, á hverju ári, en vandinn eykst samt. Af hverju? Vegna þess að þjóðin eldist, henni fjölgar og ég gæti haldið svona áfram. Það sem ég var af veikum burðum að reyna að segja er að ég held að það þurfi á einhvern hátt að stokka upp þessa umræðu vegna þess að það er alveg hárrétt sem hv. þm. sagði að hún er orðin ,,stagneruð`` og ófrjó. Hún felst í því að hann kemur upp og hrósar ríkisstjórninni og ég kem upp og ræðst á ríkisstjórnina. Vandinn heldur áfram að aukast og það sem vantar í þetta er einhver sýn. Ég er ekki að setja sökina alfarið á stjórnarliðana og ríkisstjórnina. En eitt af því sem ég var að reyna að segja áðan er að mér finnst að af hálfu framkvæmdarvaldsins vanti tilraun til að móta sýn og stefnu til lengri tíma. Mér finnst, eftir allar þær skýrslur sem hafa komið á síðustu missirum, sé kominn tími til að ríkisstjórnin reyni með einhverju móti að berja saman stefnu og leggja hana fyrir þingið til að þingið geti rætt hana, komið með sínar athugasemdir og til þess að fagnefndirnar geti t.d. farið í þessi stóru og erfiðu mál eins og hugmyndin um sameiningu sjúkrahúsanna er.

Ég held það sé nauðsynlegt að þingið komi einhvern veginn að því, en í dag er það lokað í einhverjum stýrinefndum sem stöku þingmenn fá aðgang að og sem meira að segja borgarstjórn Reykjavíkur þarf að slást fyrir að koma að þegar um er að ræða jafnveigamikið mál og Sjúkrahús Reykjavíkur er fyrir hana.