Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 21:55:41 (1946)

1997-12-09 21:55:41# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:55]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja tímann, en mér finnst nauðsynlegt að nokkur atriði komi hér fram vegna þeirra umræðna sem hafa dunið yfir í kvöld.

Hér var rætt um að erlendir aðilar hafi verið fengnir til að taka út sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu. Ég vil minna á að VSÓ er alíslenskt fyrirtæki, þrátt fyrir að þeir fái ráðgjafa erlendis frá og ekkert er óeðlilegt við það. Rætt var um að embættismenn hafi sérstaklega fengið ráðgjafa. Þetta var rætt í ríkisstjórn og ríkisstjórnin hefur ákveðið að halda þessu starfi áfram og halda þessari samhæfingu áfram. Það eru því ekki einhverjir embættismenn úti í bæ sem ákveða slíkt, heldur ríkisstjórn Íslands. Mér finnst nauðsynlegt að þetta komi fram. Auðvitað var þetta rammi sem var kynntur og sú skýrsla sem hér hefur verið til umræðu var kynnt heilbr.- og trn. og fjárln. Flestir fulltrúar þessara nefnda mættu á fund þar sem skýrslan var rædd nokkuð ítarlega og meiri hluti þeirra sem þar mættu vildi halda þessari vinnu áfram sem og hefur verið gert. Þetta fannst mér nauðsynlegt að kæmi fram.

Mér finnst líka nauðsynlegt að ítreka að við erum að auka fjármagn til sjúkrahúsanna. Menn geta deilt um hvort það er nægilegt. Það er eðlilegt að deilt sé um það og eðlilegt að minnt sé á að fjármagn er aukið árin 1996, 1997 og 1998, og var ekki vanþörf á. Þetta er nauðsynlegt að komi fram.

Þegar við ræðum um héraðsstjórnirnar þá er líka nauðsynlegt að minna á að rétt er að nefndin skilaði aldrei endanlegu áliti. En það sem ég spurði menn um var hvort menn væru á móti þeirri samræmingu sem síðar hefur átt sér stað. Ég segi ekki að þeir ágætu þingmenn sem hér hafa talað hafi ekki viljað taka ábyrgð á því að taka svo stóra ákvörðun að fækka stjórnum eins og tillögur voru uppi um, en það var alltént ekki mikill áhugi í nefndinni á að ljúka þessum störfum. Það sem síðan hefur gerst hefur gerst heima í héruðum og við höfum dyggilega fylgt þeim tillögum sem þaðan hafa komið og ég tel að þær hafi verið verulega til bóta og að menn sjái að nauðsynlegt er að samræma þjónustuna á hverju svæði.