1997-12-10 00:02:05# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[24:02]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að hluti hækkana til spítalanna er vegna launaútgjalda og það eru ekki öll kurl komin til grafar í þeim efnum því að til meðferðar eru í fjárln. upphæðir vegna kjarasamninga sem nýlega hafa verið gerðir og varða sjúkrahúsin þannig að enn eiga eftir að koma til fjármunir vegna þess. En þetta eru auðvitað útgjöld fyrir ríkissjóð og þetta er útgjaldaþörf þó að hún fari til launa og gerir það að verkum að um þrengist í því að vera innan rammans.

Ég hef ekkert sagt um það að 1,5 milljarðar í fjárvöntun til sjúkrahúsanna sé endanleg tala og hef ekkert skrifað upp á það sem hv. 8. þm. Reykv. segir í því efni. Ég sagði aðeins að ég gerði mér það ljóst að þessi vandi væri verulega mikill og nauðsynlegt væri að ráðast gegn honum. Stjórnarandstaðan hefur haldið því hér fram að samningar fari þannig fram að hengingaról sé á hálsi annars samningsaðilans. Ég hygg að ekki þurfi að mála hlutina svo sterkum litum. Ég tel að það sé hlutverk okkar alþingismanna að gæta þess að ekki sé níðst á sjúkrahúsunum. Ég held að menn hafi alveg fullan viljan til þess og fullan vilja til að ræða slík mál á Alþingi.

Ég hef ekki trú á því að samningar þurfi að leiða til þess að annar samningsaðilinn verði hengdur. Það er langt í frá.