Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 11:33:37 (1994)

1997-12-12 11:33:37# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[11:33]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Við 2. umr. fjáraukalaga og nú í framsöguræðu minni hef ég þegar gert grein fyrir þeim áformum sem uppi eru um að fara yfir málefni sjúkrahúsanna og forgangsverkefni að gera það. Fulltrúar sjúkrahúsanna eiga að hafa fulla aðild að því verkefni. Fjárln. mun fylgjast með þeim störfum og fá tillögur þeirrar stýrinefndar sem ætlunin er að setja í þetta verk og fara yfir þær. Ég endutek að engin áform eru um að skera niður þjónustu á sjúkrahúsunum en takmarkið er að gera um hana samkomulag, fara yfir rekstraráætlanir sjúkrahúsanna, leggja tillögur fyrir eins fljótt og auðið er á næsta ári og niðurstöðunum mun fjárln. fylgjast með. 300 millj. er veruleg aukning til þessa málaflokks til viðbótar við þær aukafjárveitingar sem voru komnar en hins vegar eru ýmsar skipulagsbreytingar á döfinni í samræmi við samning þar um hjá sjúkrahúsunum í Reykjavík. Það er m.a. þeim sem verður að fylgjast með hvernig vindur fram og taka afstöðu til þeirrar niðurstöðu sem þar liggur fyrir. Það getur auðvitað haft áhrif á fjárþörfina hvernig þeirri samningagerð reiðir af.