Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 16:52:32 (2046)

1997-12-12 16:52:32# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[16:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Hjálmari Jónssyni að þessi umræða var afskaplega óheppileg. Hún var þó ekki að öllu leyti ófarsæl vegna þess að hún leiddi til þess að menn fóru í að gera úttekt á stöðu m.a. þessara sjúkrahúsa og komust að því að hún var miklu miklu verri en heilbrrn. gerði sér grein fyrir og það leiddi til þess að fjárln. gerði tillögu um 200 millj. kr. aukafjárveitingu á fjáraukalögum til þess að leiðrétta það. Það kom þó jákvætt út úr því.

Hv. þm. sagði að óskandi væri að sátt tækist um að sjúkrahúsin á landsbyggðinni gætu sinnt ákveðnum verkum en hátæknisjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu öðrum og flóknari verkefnum. Ég tek undir þessa ósk. En til að hægt sé að koma slíku í framkvæmd, þá þurfum við að hafa stefnu í þessum málum og við þurfum að móta stefnuna í sameiningu hér á Alþingi. Við förum með fjárlagavaldið og þess vegna skiptir það mjög miklu máli að við fáum tækifæri til þess að ræða þessi mál. Sem formaður heilbrn. hef ég aftur og aftur komið hingað og kvarta sárlega undan því að þingið fái aldrei tækifæri til þess að ræða stefnu í sjúkrahúsmálum. Hvers vegna? Vegna þess að hæstv. heilbrrh. tekur alltaf á sig hring fram hjá þinginu. Ég nefni t.d. skýrslu VSÓ. Hvað sem mönnum finnst um þá skýrslu, þá fólst í henni vísir að stefnu. Hún var alla vega þess virði að menn ræddu hana. En hvað var gert við það mál? Það var afgreitt utan þingsins. Það var sett í nefnd sem þingmenn komast ekki að. Umræðan sem ætti með réttu að vera hérna innan veggja þingsins fer fram á einhverjum kontórum í fjármála- og heilbrigðisráðuneytum. Hv. þm. Hjálmar Jónsson fær ekki að taka þátt í henni nema hann sé í náðinni hjá hæstv. heilbrrh.

En af því að hv. þm. Gísli S. Einarsson á afmæli í dag, þá langar mig til þess að óska honum til hamingju með afmælið.