Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 21:58:23 (2084)

1997-12-12 21:58:23# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[21:58]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er varla hægt að munnhöggvast við hv. þm. Jón Kristjánsson. Hann er svo vel meinandi að það er verst að hann skuli ekki vera ráðherra. Ég er alveg sannfærð um að hann væri búinn að taka á öllum þessum málum sem ég var að kvarta yfir að ekki hefði verið tekið á hjá ríkisstjórninni. En einu svaraði hann mér ekki sem ég spurði um áðan og það er um þjónustuna við einhverfa, þennan hóp fatlaðra, einhverfa og einstaklinga með asperger-heilkenni sem ekki hafa fengið þjónustu í lengri tíma. Það er mjög áríðandi að þeir fái þjónustu ef ekki á að stefna í óefni. Ég taldi að það þyrfti kannski 5 millj. kr. til þess að það væri hægt að koma þessu í þokkalegt horf. Ég spurði hv. formann fjárln. hvort hann sæi sér fært að leysa úr því máli. Það er tillaga hér í þinginu um að þarna komi viðbótarfjárveiting. Ég spyr hv. formann fjárln.: Telur hann að hann sé aflögufær um 5 millj. til þessa hóps fatlaðra sem hefur verið án þjónustu nú í þó nokkurn tíma?