Lögskráning sjómanna

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 11:12:36 (2112)

1997-12-13 11:12:36# 122. lþ. 42.5 fundur 289. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv. 119/1997, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[11:12]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 470 ásamt brtt. á þskj. 471, um frv. til laga um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum.

Frumvarpið felur í sér frestun á gildistöku þess skilyrðis fyrir lögskráningu sjómanna að þeir hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða með öðrum hætti. Eins og menn þekkja er gert ráð fyrir því samkvæmt lögum að forsenda fyrir því að sjómenn fái lögskráningu er að þeir hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða með öðru móti. Það hefur hins vegar komið á daginn að ekki hefur verið hægt að anna því að halda nægilega mörg námskeið til þess að menn gætu farið í gegnum skólann. Þess vegna hefur verið gripið til þess ráðs tvisvar sinnum á hv. Alþingi að breyta lögunum eitt ár í senn þannig að ráðrúm gæfist til að ljúka þessum námskeiðum. Þetta hefur hins vegar ekki reynst nægilegur tími þrátt fyrir að námskeiðin hafi verið mjög vel sótt og vel skipulögð. Þess vegna er nú enn lagt til að fresta þessu gildistökuákvæði, þó með mun strangari skilyrðum en áður.

Samkvæmt frumvarpinu er skipstjórnarmönnum og öðrum skipverjum veittur frestur til 31. desember 1998 til þess fullnægja skilyrðinu hafi þeir skráð sig á námskeið fyrir 1. janúar 1998. Fram kom við meðferð málsins að um 940 sjómenn hafi nú þegar skráð sig á öryggisfræðslunámskeið Slysavarnaskóla sjómanna og er það að mati forráðamanna skólans nær allir þeir sem enn eiga eftir að sækja slíkt námskeið. Ljóst er hins vegar að ekki verður hægt að ljúka námskeiðahaldi vegna þessara umsækjenda fyrr en á fyrsta ársfjórðungi 1999 vegna þess einfaldlega að þetta er svo stór hópur að skólinn annar því ekki að ljúka þessu fyrr en þá. Með hliðsjón af því er nefndin sammála því að veita skuli þennan viðbótarfrest en leggur til að hann verði framlengdur til 1. apríl 1999 svo tryggt sé að allir sem hyggjast sækja slík öryggisfræðslunámskeið eigi kost á því. Jafnframt telur nefndin eðlilegt, þar sem hér er um að ræða ákvæði sem einungis á að standa í ákveðinn tíma, að þetta frestunarákvæði verði gert að bráðabirgðaákvæði við lögin þannig að það falli niður þegar frestinum lýkur.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Undir nál. rita auk formanns og framsögmanns hv. þm. Magnús Stefánsson, Stefán Guðmundsson, Kristján Pálsson, Egill Jónsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Ragnar Arnalds og Árni Johnsen.