Fjárlög 1998

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 15:46:33 (2182)

1997-12-13 15:46:33# 122. lþ. 42.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[15:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi tillaga gengur út á það að Vegasjóður haldi sínum mörkuðu tekjum, hann haldi sinni hlutdeild í þeim tekjum sem skattar, aðflutningsgjöld, þungaskattur og bensíngjöld af umferðinni gefa. En nú bregður svo undarlega við í miðju góðærinu að það á að skerða þessar tekjur um meira en 1 milljarð króna. Þetta er auðvitað ofboðsleg niðurstaða. Hún er ofboðsleg vegna þess að það er mikil og hrópandi þörf á þessar framkvæmdir um allt land og einnig hér á höfuðborgarsvæðinu og hún er einnig ekki síst svakaleg meðferð á hæstv. samgrh. Hún er eins og pólitísk minningarathöfn um feril hæstv. samgrh., þessi hrikalega niðurstaða að hæstv. ráðherra skuli sjá á eftir sínum málaflokki svona grátt leiknum hér í afgreiðslu fjárlagafrv.

Það er algjörlega óhjákvæmilegt að það fáist fram einhver úrlausn í þessum efnum, herra forseti, ef vegáætlun á næsta ári á að geta orðið þannig að nokkur leið verði að una við það og eðlilegt og sjálfsagt er að samþykkja þessa tillögu um að Vegasjóður haldi sínum hlut í skatttekjum af umferðinni. Ég segi já.