Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 18:51:20 (2286)

1997-12-15 18:51:20# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[18:51]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski til marks um það að þetta frv. sem við erum hér að ræða sé hið ágætasta mál ef það er rétt sem þingmaðurinn heldur fram að enginn sé ánægður með frv. Það er þá kannski til marks um að það nái utan um alla þá sem því er ætlað að gera.

En af því að við vorum að ræða sérstaklega um þjóðlífsfulltrúana, þá ætla ég að vitna í greinargerð með 13. gr., með leyfi forseta, þar sem segir:

,,Þessir fulltrúar eiga að vera með víðtæka þekkingu á málefnum þjóðlífs og atvinnulífs og traustan skilning á starfsemi háskóla. Með þessu fyrirkomulagi á að tengja skólana betur við atvinnulífið en nú er gert. Ráðherra getur sett reglur um með hvaða hætti þessir fulltrúar skuli skipaðir en ekki er talið heppilegt að lögbinda hvernig val þeirra skuli fara fram, enda geta þær reglur breyst í tímanna rás.``

Enda er þetta frv. sem hér er um að ræða rammalöggjöf sem á að ná utan um marga skóla þannig að ekki er heppilegt að festa niður einhverja eina ákveðna aðferð um það hvernig slíkir fulltrúar skulu valdir.