Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 22:15:44 (2299)

1997-12-15 22:15:44# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:15]

Frsm. minni hluta menntmn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil það þá þannig að í rauninni sé það sami málsliðurinn sem veitir ríkisskólunum vörn gegn skólagjöldum og gefur einkaskólunum heimild til að taka skólagjöld. Öðruvísi var ekki hægt að skilja svar hv. þm. Menn geta svo bara velt vöngum yfir því hversu djúpur hinn yfirlýsti skilningur er.

Í öðru lagi vil ég nefna svarið við því af hverju á að fella úr gildi lög um skólakerfi. Það svar sem hv. þm. gaf hef ég heyrt áður og með það í huga hef ég lesið lögin um skólakerfi yfir til þess að reyna að ná þessu saman. Það hefur ekki tekist en ef svarið er þetta, er þingmaðurinn þá tilbúinn til að fara í þann leiðangur með mér og öðrum að setja ákvæði sama efnis og 6. gr. laganna um skólakerfi kveður á um inn í þessa rammalöggjöf um háskólann, þ.e. að óheimilt sé að taka gjald fyrir kennslu í opinberum skólum? Vegna þess, herra forseti, að ef menn eru ekki tilbúnir til þess, þurfum við ekkert að velkjast í vafa um það hver tilgangurinn er með því að fella þessi lög úr gildi.