1997-12-16 00:58:52# 122. lþ. 43.17 fundur 167. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# frv. 137/1997, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[24:58]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. nefnd fyrir vel unnin störf og þá niðurstöðu sem fengist hefur í nefndinni um þetta mikilvæga frv. Eins og fram hefur komið eru menn sammála um það sem í því stendur og nefndin stendur öll að álitinu með fyrirvörum eins og hér hafa verið skýrðir.

Ég vil leiðrétta þann misskilning sem fram hefur komið í máli manna að ég hafi verið að agnúast út í hv. stjórnarandstöðu fyrir að styðja 4. gr. í þessu frv. Ég var ekkert að ræða þetta frv. áðan heldur var ég að ræða breytingartillögur minni hluta menntmn. við frv. til laga um háskóla en þar segir í tölul. 3, staflið c, með leyfi forseta:

,,Gjaldtaka af nemendum má einungis nema áætluðum kostnaði við innritun, kennsluefni og pappírsvörur sem skólinn lætur nemendum í té. Slíkt gjald skal aldrei nema hærri upphæð en 25.000 kr.``

Það var þetta sem ég var að fjalla um en ekki um frv. til laga um Kennara- og uppeldisháskóla enda var það ekki til umræðu áðan. Það er fyrst til umræðu núna þannig að ég vildi leiðrétta þennan misskilning. Ég var ekkert að finna að því að stjórnarandstaðan styddi þetta frv. nema síður væri.

[25:00]

Vegna þeirrar fyrirspurnar sem fram hefur komið frá tveimur hv. þm. um lengd kennaranámsins og sérstaklega tilvísun hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur til ályktunar eða samþykktar frá 10. des. 1997 þá er ég ekki í aðstöðu til að tjá mig um þá samþykkt. Hún hefur ekki borist mér. Ég hef ekki séð hana og get þess vegna ekki lagt mat á hvað þar var ályktað en þakka hv. þm. fyrir að lesa meginatriði hennar. En það lýtur að því eins og fram hefur komið hvort upp verði tekið fjögurra ára nám við hinn nýja skóla. Ég hef lýst því yfir áður að ég tel að það beri ekki að setja það í lög um skólann hvað námið í honum er langt. En ég hef einnig lýst því yfir að það ráðist af samningum milli skólans, menntmrn. og fjárveitingavaldsins hve umsvifin verða mikil. Flest rök hníga að því að það þurfi að lengja hér kennaranámið eins og fram hefur komið. Hins vegar vil ég ekki fjalla á þessu stigi málsins um það hvernig námskránni verður háttað í einstökum atriðum. Ég þarf að kynna mér þessa ályktun frá 10. des. Ég hef lesið skýrsluna frá því í sumar og rætt um hana við forustumenn Kennaraháskólans og farið yfir ýmis atriði í því efni og þetta er eitt af þeim viðfangsefnum sem blasa við sem viðræðuefni á milli ráðuneytisins og skólans um það starf sem fer fram í skólanum og snertir einnig þann samning sem ráðuneytið mun gera við skólann. Ég hef síður en svo lagst gegn því að menn hugi að lengra kennaranámi. En hvernig inntak þess verður, hvað það á að spanna og hvaða réttindi það á að veita ætla ég ekki að tjá mig frekar um á þessu stigi málsins.