1997-12-16 12:11:22# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[12:11]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég tel fulla ástæðu til þess að taka mark á þeim viðvörunum sem vísindamenn hafa verið með og þeim vísbendingum sem vísindamenn hafa verið með um áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda á lofthjúpinn og þeirra loftslagsbreytinga sem af manna völdum gætu leitt. Ég vil ekki gera lítið úr þessu. Ég held hins vegar og er sannfærður um að sá undirbúningur að þeim samningi sem fer núna til undirritunar í byrjun næsta árs mun leiða til þess að atvinnulífið í heiminum, vísindamenn og tæknimenn munu fara að leita nýrra leiða og nýrrar tækni til þess að draga úr losuninni og þá um leið til þess að leita nýrra leiða og finna nýja orkugjafa. Með öðrum orðum, samningur af þessu tagi mun knýja menn til þess að leita nýrra lausna.

Það er dálítið merkilegt að hlusta á hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa talað og finna það út í umræðunni að Íslendingar séu aðalsökudólgurinn í þessu öllu saman. Slíkur málflutningur er hreint og beint til skammar vegna þess að menn vita miklu betur. Staðreyndin er sú að við Íslendingar höfum verið í fararbroddi heims í því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda á undanförnum árum. Þegar við horfum á hvað Ísland er lítið og smátt í þessu samhengi, þá er það svo að við erum með losun sem er 40% undir því að meðaltali sem er í OECD-ríkjunum. (Gripið fram í: Hvað mikið?) 40% undir því sem er í OECD-ríkjunum. Heildaráhrifin á útblæstri Íslands í heiminum er einn tíu þúsundasti hluti í heildarútblæstrinum. Við erum með losun á CO2 á hverja orkueiningu sem er 40% af því sem aðrar þjóðir eru með. Við erum með lægstu losun af CO2 á orkueiningu af öllum ríkjum OECD. Við erum með lægstu losun á orkueiningu af öllum þeim ríkjum sem tillögur liggja fyrir um að taki á sig þennan samdrátt.

Ég tel að það hafi verið vel á málum haldið af hálfu íslenskra stjórnvalda í samningaviðræðunum og það sem ég tel vera mikilvægast er það að okkur tókst á þessari ráðstefnu í Kyoto að fá þjóðir heims til að skilja sérstöðu okkar. Sérstaða okkar birtist í því að við fáum rýmri heimildir en aðrir samkvæmt samkomulaginu og svo hitt að um Ísland, þó að það sé ekki nákvæmlega nefnt, er alveg sérstök samþykkt og það eru vísbendingar um að tekið sé tillit til þess sem við höfum þarna fram að færa. Auðvitað er mikilvægt að okkur hafi tekist þarna að fá þjóðir heims, að fá útlendinga, til að skilja sérstöðu Íslendinga sem byggist m.a. á því hvað við erum lítil og við höfum verið í fararbroddi þjóða heims í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á undanförnum árum.

Ef við hefðum ekki 1973 gripið til þeirra aðgerða sem við gripum þá til í hitaveituvæðingu landsins og værum enn þá með 50% af heimilum landsins hituð upp með olíu og værum núna að grípa til þeirra aðgerða, þá gætum við aukið losunina um 40%. Þetta segir allt um það hvað við höfum verið að gera á undanförnum árum. Við gætum þess vegna aukið hana um 40% til að standa jafnt og við stöndum 1990.

Við höfum líka verið að innleiða hér endurnýjanlega orkugjafa. Þetta skilja þjóðir heims og kemur fram á ráðstefnunni í Japan. En hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað skilja ekki þessa íslensku hagsmuni sem þarna eru í húfi. Og það er alvarlegt ef íslenskir alþingismenn skilja ekki íslenska hagsmuni. Það er, herra forseti, saga til næsta bæjar ef útlendingar hafa orðið betri skilning á íslenskum hagsmunum en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson.

Samningsgerðin öllsömul snýst auðvitað um efnahagslega hagsmuni og menn þurfa ekkert að fara í grafgötur um að það er togast á í samningnum um efnahagslega hagsmuni milli þjóða heimsins. Við Íslendingar höfum komið þar heiðarlega fram, lagt spilin á borðið, sett kröfur okkar fram á meðan þjóðir eins og Evrópusambandsþjóðirnar hafa leikið tveimur skjöldum, koma fram eins og hvítþvegnir englar og segja: Við getum dregið saman um 15%. Hver verður niðurstaðan? Af hverju dró Evrópusambandið ekki saman um 15%? Það var vegna þess að efnahagslegir hagsmunir voru í húfi. Staðreyndin er sú að alþjóðasiglingar og alþjóðaflug er utan samningsins. Evrópusambandið horfir á sig sem eina þjóð. En þegar menn ætla síðan að fljúga milli ríkja innan Evrópusambandsins, þá segir Evrópusambandið: Nei, nú erum við í millilandaflugi. Tvískinnungurinn kemur alls staðar fram í þessum samningum.