Vörugjald

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 16:03:38 (2389)

1997-12-16 16:03:38# 122. lþ. 44.8 fundur 347. mál: #A vörugjald# (álagning, eftirlit o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[16:03]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla í stuttu máli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum. Frv. er að finna á þskj. 460 og er 347. mál þingsins.

Eins og fram kemur í athugasemdum við þetta frv. eru hér lagðar til þrenns konar breytingar á vörugjaldslögunum. Í fyrsta lagi er lagt til að álagning og eftirlit með vörugjaldsskilum innan lands verði færð frá einstökum skattstjórum til ríkisskattstjóra. Það er fyrst og fremst til þess að samræma betur meðferð þessara mála. Í annan stað er í frv. gert ráð fyrir að með ótvíræðum hætti verði kveðið á um heimild til sölu eða innflutnings á hráefni eða efnivöru án vörugjalds til innlendrar framleiðslu. Þetta mál hefur verið nokkuð til undirbúnings að undanförnu og varðar fyrst og fremst þá sem framleiða iðnaðarvöru hér á landi. Hér er um að ræða framleiðsluvöru hvort sem hún er gjaldskyld eða ógjaldskyld. Í þriðja lagi er kannski ein veigamesta breytingin, tillaga um að uppgjörstímabil vörugjalds verði samræmd uppgjörstímabilum virðisaukaskatts og gjalddagar verði þeir sömu og gjalddagar virðisaukaskatts vegna sölu á vöru og þjónustu hér á landi. Að auki eru lagðar til smávægilegar breytingar á viðauka I við lögin, en í honum er kveðið á um hvaða vörur séu gjaldskyldar. Síðan er gerð grein fyrir þessum breytingum í athugasemdum á þingskjalinu í afar aðgengilegum köflum sem ég sé ekki ástæðu til að lýsa nánar hér.

Ég vil taka fram, virðulegi forseti, að ekki er nauðsynlegt að þetta mál verði afgreitt fyrir jól en vegna þess hve þingstörf hafa gengið vel og fá mál frá ríkisstjórninni liggja fyrir þinginu væri ekki verra að renna þessu máli í gegn ef kostur væri. Ég geri að tillögu minni að málið verði sent til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.