Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 17:22:06 (2403)

1997-12-16 17:22:06# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[17:22]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. að það vill svo vel til að innan núverandi stjórnar Hollustuverndar er reyndar sérþekking fyrir hendi því það hefur valist svo vel í stjórnina að þessu sinni. En það er ekki endilega tryggt að svoleiðis sé og stjórn hefur oftast haft annað hlutverk hjá stofnunum en að fjalla um svo sérgreind og sérhæfð málefni eins og kemur upp á borð stjórnarinnar núna eða hefur gert, m.a. í tengslum við þessi starfsleyfismál, því að venjulega er nú byggt á sérfræðiþekkingu innan stofnunarinnar hjá sérfræðingunum sem þar starfa til þess að fjalla um slík mál.

Ég vildi líka láta það koma fram af því að ég sagði að frv. sem væri flutt væri efnislega eins og frv. sem ég lagði fram í haust. Að vísu er eitt atriði í sambandi við úrskurðarnefndirnar sem er með öðrum hætti. Í mínu frv. var gert ráð fyrir því að öll nefndin væri skipuð lögfræðingum en hér er það ekki gert að skilyrði. Það er sagt að einn þeirra skuli vera lögfræðingur, þeir gætu auðvitað allir þrír verið lögfræðingar, það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. En þetta er breyting sem er aðeins öðruvísi, þannig að því sé nú til skila haldið að það er ekki nákvæmlega eins og ég lagði það fram. Það er ekki aðalatriði í mínum huga en þó vil ég segja það að ég held að þegar mál koma til úrskurðarnefndarinnar séu það fyrst og fremst lögfræðileg álitaefni sem úrskurðarnefndin þarf að taka á. Ég segi fyrst og fremst en auðvitað getur þar komið fleira til og þá held ég að slík úrskurðarnefnd muni yfirleitt þurfa að leita sér sérfræðiþekkingar utan nefndar, leita til óháðra eða annarra sérfræðinga af því að það er ekki heldur sjálfgefið að slík sérfræðiþekking sé endilega inni í úrskurðarnefnd þriggja manna og það reyni mest á að þar séu lögfræðingar.

Hv. þm. spurði líka annars vegar um hvernig menn meta mengun og taki á því og hins vegar röskun á umhverfi. Um mengun er yfirleitt fjallað þegar fjallað er um starfsleyfismálin, það er starfsleyfisútgáfan sem tekur á þeim en röskun á umhverfi og slíkar breytingar falla hins vegar undir lög um mat á umhverfisáhrifum og það ferli sem þá fer fram. Hér er því um ofurlítið óskylda þætti að ræða.

Allra seinast í sambandi við stjórnir almennt að þó ekki hafi verið mótuð heildarstefna í því hvort opinberar stofnanir eigi að vera með stjórnir eða ekki þá hefur það frekar verið að færast í þessa áttina að sett er meiri ábyrgð á hendur stjórnendanna, forstöðumanna stofnananna, og það er sú hugsun sem er í lögunum um (Forseti hringir.) réttindi og skyldu starfsmanna, nr. 70/1996, sem þar kemur fram. Ég hygg að þetta sé almennt meira sú þróun og eigi eftir að verða áfram.