Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:41:04 (2434)

1997-12-16 22:41:04# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:41]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt það sem þurfti að koma fram. Einn hv. þm. í meiri hlutanum hefur undirbúið þá afstöðu sína sem hv. talsmaður meiri hlutans var að lýsa með því að skrifa undir með fyrirvara. Aðrir hafa ekki gert það. En varaformaður sjútvn. og frsm. meiri hlutans var að lýsa því yfir að ótaldir meirihlutamenn væru þeirrar skoðunar að hér væri verið með breytingu að tjalda til einnar nætur. Það ætti að stefna að því að afnema þær reglur sem hafa verið settar og er verið að breyta um endurnýjun. Það staðfestir að meiri hluti sjútvn., stjórnarsinnar sem stjórnarandstæðingar, vilja ekki að þær reglur sem verið sé að setja séu varanlegar heldur beri að afnema þær. Þegar send eru slík skilaboð frá Alþingi þá ber Alþingi skylda til þess að eyða þeirri óvissu sem það er að skapa með því að skýra frá því hvenær og með hvaða hætti eigi að afnema reglurnar þannig að menn gangi að því sem gefnu sem eru að hugsa um að leggja í mikinn kostnað til að endurnýja skip sín, hvort verið er að plata þá til að verja miklum fjármunum í því skyni sem menn geta sparað sér ef þeir hefðu biðlund um skamman tíma. Það nær engri átt, virðulegi forseti, að meiri hluti sjútvn. skuli senda þessi skilaboð frá sér til íslenskra útvegsmanna en neita að svara þeirri sjálfsögðu spurningu: Hvenær og hvernig hyggjast menn þá afnema reglurnar? Menn getur greint á um hvort það eigi að gera á þriggja ára tímabili, tveggja ára tímabili, fimm ára tímabili. Þá verða þessir ágætu menn að gera svo vel að koma með tillögur sínar og hvernig að því skuli staðið til að eyða þeirri óvissu sem þeir eru að skapa. Þetta skilur hver meðalgreindur maður.