1997-12-17 00:26:04# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:26]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað tek ég undir það með hv. þm. að það er til bóta að ná samkomulagi um að leysa málin og í sjálfu sér er að í tvígang hafi tekist að ganga frá málum að verulegu leyti á grundvelli samkomulags við Landssambands smábátaeigenda.

Varðandi það að hv. þm. virðist vera viðkvæmur fyrir tóninum í nefndaráliti minni hlutans, þá bið ég hv. þm. að taka það ekki of nærri sér. Staðreyndin er sú að þar er fyrst og fremst vísað til þess að við í minni hlutanum fluttum brtt. vorið 1995 um róðrardagakerfið með ákveðnu gólfi á dagafjölda. Auðvitað var það tilraun til þess að reyna að finna varanlegan frágang fyrir þann hóp og tryggja honum ákveðið lágmarksöryggi með því að dagafjöldinn gæti þó aldrei farið niður fyrir viss mörk. Vorið 1996 varaði ég í ítarlegu nefndaráliti rækilega við því sem fram undan væri og hvatti til að menn horfðust í augu við að ekki mundi annað duga en að finna frekari úrlausn fyrir þann hluta krókaveiðiflotans sem minnsta hefði aflareynsluna. og mundi þar af leiðandi ekki treysta sér til að velja þorskaflahámarkið. Allt hefur það gengið eftir og það er ósköp eðlilegt að farið sé aðeins yfir söguna og bakgrunninn í málinu.

Málsvörn hv. þm. er í raun og veru sú að taka beri viljann fyrir verkið. Menn séu að reyna að nudda við þetta eftir getu og reyna að gera vel og þetta sé svona heldur í áttina. Mikil er trú þín, verð ég náttúrlega að segja. Kannski er rétt að upp að vissu marki hafa aðilar fengið úrlausn eins og þorskaflahámarkshópurinn og aflamarkshópurinn. Sú úrlausn nær þó of skammt að mínu mati en eftir standa rúmlega 400 bátar sem eru enn nokkurn veginn í jafnvondri stöðu og þeir voru í 1995 og 1996, að loknu þessu fiskveiðiári, í fullkominni óvissu um framtíðina.