Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:37:32 (2555)

1997-12-17 15:37:32# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:37]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta vera diplómatískt bréf frá háskólanum frá því í vor, vegna þess að háskólinn lagði í fyrsta lagi til að IV. kaflinn yrði tekinn út. Og þar eru öll aðalatriðin, þar eru öll ágreiningsatriðin. ,,Að öðru leyti``, sagði háskólinn í bréfinu frá 5. maí, ,,er þetta gott frv.`` Það er röng uppsetning og ósanngjörn gagnvart háskólanum að setja hlutina þannig upp að þó að hann hafi skrifað bréf með þessum hætti þá hafi hann verið að fagna þessu máli með orðum sínum frá því í vor. Því fer víðsfjarri. Ég fullyrði að Háskóli Íslands hefði mikið frekar viljað vera laus við þetta frv. en að það yrði afgreitt eins og nú er að gerast vegna þess að þarna er verið að skerða frelsi háskólans og veitast mjög að nemendum hans með skólagjaldaákvæðum 19. gr.