Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 16:55:39 (2572)

1997-12-17 16:55:39# 122. lþ. 46.11 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. meiri hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[16:55]

Frsm. meiri hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mundi æra óstöðugan að eltast við allar þær rangfærslur sem er að finna í nál. og það liggur bara við að ég mótmæli nál. en ég ætla aðeins að tæpa á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi kom fram í máli gesta, m.a. frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, að það að taka upp húsaleigubætur hefði ekki hækkað leigu og við höfum ekki séð þess merki að leiga hafi hækkað þess vegna en þó fullyrðir þingmaðurinn að húsaleigubætur almennt auki eftirspurn eftir leiguhúsnæði og hækki leigu.

Hér er vikið að því að þeir skattgreiðendur sem búa í sveitarfélagi sem hefur ekki tekið upp greiðslu húsaleigubóta og eigi ekki kost á þeim bótum þó þeir fullnægi skilyrðum að öðru leyti greiði bætur hinna með sköttum sínum. Með þessum lagabreytingum er verið að koma á húsaleigubótum í öllum sveitarfélögum sem verður þá til þess að fólki verður ekki mismunað að því leyti. Satt best að segja skil ég ekki þessa setningu. Mér finnst hv. þm. algjörlega hunsa þær upplýsingar sem komu fram í nefndinni um það hverjir eru á leigumarkaði og hverjir leigja. Það er auðvitað endalaust hægt að ,,fabúlera`` um alls konar dæmi en fólk með 220 þús. kr. tekjur á mánuði er ekki á leigumarkaði nema í einstaka tilvikum. Það er nú einu sinni svo, eins og hv. þm. veit, að mikill meiri hluti fólks býr í eigin húsnæði og margvíslega hefur verið reynt að stuðla að því að fólk eignist eigin húsnæði þannig að þessir gallar sem hann er að tíunda eru náttúrlega bara einhvers staðar utan úr loftinu.

Samkvæmt klukkunni er tími minn búinn, hæstv. forseti, en ég vil líka mótmæla því sem hér kemur fram um Lánasjóð íslenskra námsmanna og hv. þm. ætti að kynna sér þær reglur. Þar eru veitt lán með vöxtum. Það var tekið upp á síðasta kjötímabili undir forustu þáv. menntmrn. (Forseti hringir.) þannig að þingmaðurinn þarf að kynna sér þessi mál betur.