Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 16:58:18 (2573)

1997-12-17 16:58:18# 122. lþ. 46.11 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. minni hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[16:58]

Frsm. minni hluta félmn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að húsaleigubæturnar hafi ekki hækkað leigu að þá segi ég einmitt í nál. ,,ekki er ljóst hvort það stafar af upptöku húsleigubóta eða af betra efnahagsástandi`` en það kom fram að mikil spenna er á húsaleigumarkaðnum. Ég held að það sé ekki spurning að þeir sem eru að leita sér að leiguhúsnæði í Reykjavík geta sagt sögur af því hve auðvelt er að finna íbúð til leigu þannig að ég stend við þessa fullyrðingu alfarið. Auk þess er þekkt fyrirbæri að inngrip í markað eins og húsaleigumarkaðurinn er með því að breyta verðinu fyrir annan aðilann breytir að sjálfsögðu markaðnum. Það er þekkt.

Varðandi jafnræðisregluna þá var það einmitt það sem ég sagði að núna --- ég var að hugleiða af hverju þyrfti að taka upp þessa breytingu --- en ég segi í nál. að vegna þess að jafnræðisreglan sé hugsanlega brotin þar sem allir borga núna 60% af bótunum en ekki nema sumir fá þær þá sé nauðsynlegt að gera þessa breytingu og gera þetta almennt. Þetta var rökstuðningur fyrir því að gera þetta almennt.

Það er rétt að fólk á leigumarkaði er yfirleitt með lágar tekjur. Námsmenn eru yfirleitt með lágar tekjur að meðaltali yfir árið þannig að það er ekkert skrýtið að þeir eru þriðjungur af þeim sem taka bæturnar.

Varðandi LÍN og vextina. Auðvitað eru vextir af lánum hjá LÍN en þeir eru miklu lægri en markaðsvextir og miklu lægri en á spariskírteinum.