Landafundir Íslendinga

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:43:37 (2593)

1997-12-18 10:43:37# 122. lþ. 47.4 fundur 243. mál: #A landafundir Íslendinga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:43]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Það er ljóst að ríkisstjórnin hefur þegar hafið undirbúning að þessum hátíðarhöldum sem sjálfsagt er að halda þegar líður að aldamótum. Ég ræð þó af svari hæstv. ráðherra að undirbúningurinn sé tiltölulega skammt á veg kominn og auðvitað ítreka að ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Af svörum hæstv. forsrh. skilst mér jafnframt að áherslan sé fyrst og fremst lögð á að reyna að fá afkomendur Íslendinga vestra til þess að koma hingað í tengslum við hátíðahöldin. Ég tel að það sé skynsamlegt. En ég vil samt sem áður undirstrika, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að við þurfum líka að snúa þessum hátíðahöldum að okkur sjálfum. Við þurfum að lyfta þessum merka viðburði og merku afrekum í vitund Íslendinga. Þetta hefur legið í þagnargildi. Mér tókst að komast í gegnum grunnskóla, menntaskóla og háskóla án þess að hafa nánast nokkurn pata af þessum miklu afrekum. Ég hef tekið mig til og lesið þær kennslubækur sem núna liggja fyrir framhaldsskólunum og þær eru satt að segja ekki burðugar þegar að þessu kemur. Í sumum þeirra er kannski ekkert á þetta minnst. Ein tekur rækilega á þessu en að öðru leyti er þetta afgreitt með örfáum setningum.

Ég held að það sé alveg rétt að nauðsynlegt er að rita sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi og vafalaust er fjöldi skjala enn órannsakaður, sérstaklega verslunarskjöl sem líklegast er hægt að finna í Noregi og líklega í Páfagarði vegna þess að kirkjan heimti mikinn toll í formi rostungstanna og hvítabjarnarfelda og lifandi hvítabjarna af grænlenskum Íslendingum og ég er viss um að þessi skjöl eru til. Þetta er merk saga sem má ekki liggja í þagnargildi og ég undirstrika það, herra forseti, að nauðsynlegt er að nota þessi tímamót til þess að hefja frekari rannsóknir á einmitt þessum þætti Íslendingasagnanna.