Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 11:21:21 (2607)

1997-12-18 11:21:21# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[11:21]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég geri athugasemd við að hæstv. heilbrrh. skuli ekki vera viðstaddur umræðuna þegar verið er að fjalla um frv. sem hæstv. ráðherra flytur. Það er mjög óeðlilegt, herra forseti. Hér er um að ræða mál sem ráðherrann leggur mikla áherslu á að nái fram að ganga og reyndar þingið allt. Það er svo að við 2. umr. máls vakna oft ýmsar spurningar sem þingmenn óska að beina til ráðherra sem eru með umrædd mál þannig að ég geri athugasemdir við að hæstv. ráðherra skuli ekki sýna þinginu þá virðingu að vera viðstaddur umræðuna.

Ég fagna því hvernig hv. heilbr.- og trn. hefur afgreitt frv. og hún flytur brtt. sem eru mjög til bóta. Ég nefni t.d. brtt. um að faðir eigi rétt á fæðingarorlofi í einn mánuð ef um er að ræða fjölburafæðingu eða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarleg veikindi móður. Um er að ræða tillögu sem ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fluttum við 1. umr. málsins og nefndin hefur tekið upp og gert að sinni og flytur sem brtt. við frv. og ég fagna því.

Ég hafði spurnir af því að einstakir nefndarmenn hefðu gert athugasemdir við að slík brtt. yrði flutt við 1. umr. málsins. Ég tel afar eðlilegt að gera það, ekki síst þegar um er að ræða mál sem mikill hraði er á að afgreiða. Ég tel reyndar og vil beina því til forseta að þingsköpum ætti að breyta á þann veg að heimilt sé að mæla fyrir brtt. við 1. umr. máls þannig að þingnefndir geti tekið þær til efnislegrar umfjöllunar þegar þær fjalla um viðkomandi þingmál. En ég tel afar eðlilegt að það sé gert við 1. umr. málsins þótt ekki sé heimilt að mæla fyrir henni er heimilt að leggja fram slíkar brtt. og ræða þær efnislega.

Ég hef ákveðnar spurningar til hv. formanns nefndarinnar þannig að ég vona að hann hlýði á mál mitt þar sem mér gefst ekki færi á að beina máli mínu til hæstv. ráðherra sem er ekki viðstaddur.

Í fyrsta lagi spyr ég vegna þess að það kemur ekki fram í nál. hvort nefndin hafi eitthvað rætt um það hvort fjmrh. muni fylgja fordæmi nefndarinnar, þ.e. að feður hjá hinu opinbera fái líka eins mánaðar fæðingarorlof eins og verið er að lögleiða varðandi almenna markaðinn. Eins vil ég spyrja hv. formann nefndarinnar hvernig bankastarfsmenn eru staddir við þessa breytingu. Verður það svo að bankastarfsmenn, feður, muni fá a.m.k. hálfs mánaðar fæðingarorlof eða standa þeir utan við þann rétt? Réttur þeirra hefur verið með svolítið öðrum hætti en hjá opinberum starfsmönnum og á almenna markaðnum. Nú fá bankastarfsmenn þriggja mánaða fæðingarorlof á fullum launum og síðan fá þeir þrjá mánuði samkvæmt þeim rétti sem er á almenna markaðnum, þ.e. hjá Tryggingastofnun ríkisins. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé upplýst og skýrt við umræðuna hvort bankastarfsmenn, þ.e. feður sem vinna í bönkunum, öðlist líka þann rétt sem verið er að lögleiða eða hvort þeir standi utan við hann. Það er einu sinni svo með fæðingarorlof að í gildi er mismunandi framkvæmd á því eftir því hvort um er að ræða opinbera starfsmenn sem hafa þann rétt að feður fá fæðingarorlof á fullum launum, síðan kemur almenni markaðurinn, sem við erum að fjalla um, þar sem feður hafa fæðingarorlof ekki á fullum launum heldur bara samkvæmt þeim rétti sem er 66 þús. á mánuði eða 33 þús. á hálfum mánuði. Síðan koma bankastarfsmenn sem ég veit ekki hvar standa, hvort feður sem eru bankastarfsmenn öðlist þennan rétt líka. Þegar framkvæmdin er svona misjöfn á fæðingarorlofi er þá ekki verið að brjóta, virðulegi forseti, jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þegar um er að ræða þrjá jafnsetta hópa, þ.e. feður sem eignast börn, gilda þrjár mismunandi reglur að því er varðar framkvæmdina á fæðingarorlofi? Í fyrsta lagi hvað tíminn er langur, hvort hann er hálfur mánuður eða einn mánuður og síðan hvaða laun eða bætur feður fá í fæðingarorlofi. Meður veltir fyrir sér hvort jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé ekki brotin þegar framkvæmdin er svo misjöfn. Ég ítreka spurningar mínar til formanns nefndarinnar um bankastarfsmennina og hvort því verði beint til fjmrh. að opinberir starfsmenn fái þennan framlengda rétt í einn mánuð þegar um er að ræða fjölburafæðingu, alvarlegan sjúkleika barns eða alvarleg veikindi móður.

Ég fagna því mjög sem fram kemur í lok nál. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Að lokum vill nefndin láta í ljós þá skoðun sína að stefnt skuli að heildarendurskoðun ákvæða laga um fæðingarorlof hér á landi.``

Þetta var nokkuð rætt við 1. umr. málsins þegar hæstv. heilbrrh. heiðraði okkur með nærveru sinni. Þá kom fram mjög eindregin ósk úr ræðustól frá mörgum þingmönnum að ráðist yrði í heildarendurskoðun á fæðingarorlofi sem er orðið mjög brýnt að fara af stað með. Stjórnarandstaðan óskaði eindregið eftir því við hæstv. heilbrrh. að fulltrúar stjórnarandstöðunnar fengju aðild að þeirri endurskoðun. Það hefði verið æskilegt, virðulegi forseti, að fá nokkru nánar upp gefið hjá hæstv. heilbrrh. hvort hún verði við þeim tilmælum sem komu frá einstökum ræðumönnum við 1. umr. málsins og komu fram aftur frá allri heilbr.- og trn., ósk um að farið verði af stað með slíka heildarendurskoðun.

Ég minni aftur á frv. til laga sem liggur fyrir um breytingu á lögum um fæðingarorlof, flutt af nokkrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar undir forustu hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, þar sem fram kemur mjög heildstætt frv. um fæðingarorlof þar sem verið er að samræma rétt til fæðingarorlofsgreiðslna hvort sem er á almenna markaðnum eða hjá hinu opinbera. Ég verð að segja það, herra forseti, að það gengur ekki öllu lengur að hafa mismunandi rétt, annars vegar hjá almenna markaðnum og hins vegar hjá hinu opinbera. Við hljótum að stefna að því og vinna að því hratt og vel að reyna að samræma fæðingarorlof. Þá vil ég undirstrika að ég er ekki að tala um að taka einhvern rétt af opinberum starfsmönnum. (Gripið fram í.) Ég er að tala um fæðingarorlof núna í augnablikinu. Það er reyndar ýmislegt annað sem þarf að skoða. Við höfum gagnrýnt það fyrirkomulag sem er á fjármögnun fæðingarorlofs og eins fæðingarorlofstímann sem er allt of stuttur og miklu styttri en í löndunum sem við berum okkur saman við.

[11:30]

Ég vil nefna varðandi það ákvæði sem er til umræðu í frv., sem er vissulega skref í þá átt að bæta fæðingarorlof, að hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir að 90--95% feðra muni nýta sér þennan rétt til fæðingarorlofs. Ég vil láta þá skoðun mína í ljós að ég dreg í efa að svo margir muni nýta sér þennan rétt vegna þess að í fæðingarorlofi er ekki um að ræða greiðslur á óskertum launum, eins og er hjá opinberum starfsmönnum. Ég hygg að margir geti ekki, þrátt fyrir vilja, nýtt sér fæðingarorlofið þegar um er að ræða að feður fá einungis 33 þús. kr. Ég leyfi mér að draga í efa að svo margir muni í reynd nýta sér það fæðingarorlof, þó að maður verði að vænta þess að aukning verði á frá því sem nú er, en það eru einungis 10 eða innan við 20 karlmenn sem hafa nýtt sér fæðingarorlof til þessa á hverju ári. Það var veruleg breyting á hinum Norðurlöndunum, eins og fram kemur í frv. stjórnarandstöðuþingmanna, þegar feður fengu sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Það skýrðist að verulegu leyti af því að feður geta haldið launum sínum í fæðingarorlofi. Til dæmis er bent á það í frv. stjórnarandstöðunnar að 2--3% feðra tóku sér fæðingarorlof fyrir þá breytingu áður en þetta var gert að sjálfstæðum rétti en eftir breytinguna eru um 80% norskra feðra sem taka sér fæðingarorlof. Ég held að þessi mikla breyting skýrist fyrst og fremst af því að fólk heldur launum sínum í fæðingarorlofi. Auðvitað er eðlilegt að litið sé á þetta sem ígildi vinnutaps eða launataps og að bæði feður og mæður í fæðingarorlofi hafi rétt á að halda launum sínum. Ég held að mjög brýnt sé að á því máli sé tekið. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en ítreka spurningar mínar til formanns nefndarinnar og fagna því sem nefndin áréttar hér, sem var mjög eindregin ósk við 1. umr. málsins, að þegar verði hafin endurskoðun á lögum um fæðingarorlof hér á landi.