Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 12:28:44 (2618)

1997-12-18 12:28:44# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[12:28]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu lagafrv. um sjálfstæðan rétt karla til fæðingarorlofs og nýframkomnar brtt. frá heilbr.- og trn. um það frv. sem upphaflega var lagt fram. Ég vil fyrst segja að ég tel þær brtt. sem hafa verið kynntar frá nefndinni vera mjög til bóta og ég fagna því mjög að þær skuli hafa komið fram. Þar er í fyrsta lagi um að ræða ákvæði þess efnis að faðir skuli eiga rétt á fæðingarorlofi í tvær vikur til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt. Í öðru lagi skal tekið tillit til alvarlegs sjúkleika barns eða veikinda móður. Ef um slíkt er að ræða megi lengja sjálfstæðan rétt föður til fæðingarorlofs um tvær vikur. Þetta tel ég vera brtt. sem eru mjög jákvæðar og ég fagna þeim mjög.

Ég tek undir það sem fram hefur komið hjá ýmsum hv. þm. í umræðum um þetta mál að mikilvægt er að hæstv. fjmrh. lýsi því yfir að sams konar breytingar verði gerðar á reglum sem lúta að opinberum starfsmönnum. Eins og fram hefur komið hefur feðrum í opinberu starfi verið tryggður réttur til tveggja vikna sjálfstæðs fæðingarorlofs, en ég legg áherslu á að mikilvægt er að frá ráðherra komi yfirlýsingar um að sams konar rýmkun verði gerð á réttindum opinberra starfsmanna.

[12:30]

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þessi frv. nú. Ég hef áður gert grein fyrir sjónarmiðum mínum í umræðu um þetta lagafrv. Ég lagði áherslu á að um væri að ræða mikilvæga réttarbót fyrir börn. Þetta treystir stöðu þeirra. Um væri að ræða réttarbót fyrir feður. Þetta treystir þeirra stöðu og þetta treystir stöðu fjölskyldunnar. Auðvitað þurfum við að ganga miklu lengra í þessum efnum en hér er gert ráð fyrir. Ég vek athygli á því að fyrir þinginu liggja frv. sem ganga í þá átt og nefni þar t.d. frv. sem Kvennalistinn hefur lagt fram á Alþingi þar sem kveðið er á um verulegar réttarbætur í þessum efnum. En hér er verið að stíga mikilvægt skref og þetta er árangur af langri baráttu margra aðila. Ég minni í því sambandi á tillögu sem við lögðum fram á sínum tíma, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og sá sem hér talar, þar sem lagt er til að feðrum verði tryggður tveggja vikna sjálfstæður réttur.

Aðeins að lokum nokkur orð um nauðsyn þess að samræma réttindin í landinu öllu fyrir allt fólk, mæður og feður, hvort sem fólkið starfar hjá hinu opinbera eða á einkamarkaði.

Ég er í sjálfu sér mjög fylgjandi því að þetta verði gert og tek undir þær tillögur sem hafa komið fram um að ráðist verði í þá vinnu. En ég vil jafnframt minna á að slík vinna hefur farið fram. Það er ekki langt síðan. Það var í tíð þessarar ríkisstjórnar að aðilar vinnumarkaðar komu saman til að reyna að smíða tillögur að frv. eða koma sér saman um tillögur sem ríkisstjórnin fjallaði síðan um. Að þessari vinnu komu frá launafólki fulltrúar frá ASÍ, BSRB, BHM, Sambandi íslenskra bankamanna, en auk þess var haft náið samráð af hálfu þessara aðila við fulltrúa annarra samtaka. Handan borðsins voru fulltrúar ríkisstjórnar og atvinnurekenda. Í þessu starfi og viðræðum náðist mjög góð sátt og mjög góð samvinna á milli allra fulltrúa launamannamegin. Þar var leitað leiða til að samræma réttindin og samræma þau upp á við, þannig að þau yrðu til hagsbóta fyrir þorra fólks. Atvinnurekendur sýndu hins vegar mikinn þvergirðingshátt í þessu starfi. Meginþráðurinn í starfi launafólks í þessum viðræðum var að tryggja að fólk yrði fyrir sem minnstri tekjuskerðingu við töku fæðingarorlofs.

Þegar kom að því að atvinnurekendur kynntu viðhorf sín voru þeir á einhverju stigi reiðubúnir að fallast á að fólk fengi hlutfall af launum í fæðingarorlofi og sett yrði þak á þær greiðslur, ekki yrði miðað við allra hæstu laun, engin himinhá laun, en þeir voru ekki reiðubúnir að fallast á að yrði gólf. Það yrði hlutfall af launum og jafnvel hlutfall af lægstu launum sem hefði þýtt kjaraskerðingu fyrir þá sem hafa lakast fæðingarorlof. Þetta var hugsunarhátturinn í þeim herbúðum og á slíkt vildu fulltrúar launafólks að sjálfsögðu ekki fallast.

Ég held að það sé aðeins ein leið til að leysa þetta mál, að samræma þessi réttindi. Komið hafa fram tillögur þess efnis, m.a. frá BSRB, frá Kvennalistanum og eflaust víðar, að myndaður verði sjálfstæður sjóður sem allir greiði í, opinberir starfsmenn jafnt sem aðrir. Þessi sjóður fjármagni síðan fæðingarorlofið. Ég óttast nefnilega að það sem muni leiða af breytingum á launakerfi í opinbera geiranum, þar sem einstaka stofnanir eru gerðar að fjárhagslega sjálfstæðum einingum, sé að sömu lögmál gildi hjá hinu opinbera og gilda á einkamarkaði þar sem sérstaklega smáfyrirtæki reyni að forðast að taka konur á barneignaraldri í vinnu af ótta við að þær fari í fæðingarorlof, og þau verði fyrir peningalegum búsifjum í tengslum við það.

Það sama mun gerast hjá opinberum stofnunum eftir að þeim eru settar mjög þröngar fjárhagslegar skorður, þær munu fara að hugsa á sama hátt. Þær hafa ekki gert það vegna þess að þessu hefur verið vísað í hinn stóra ríkissjóð og það hefur tryggt að önnur lögmál hafa gilt hjá hinu opinbera en á einkamarkaði að þessu leyti. Með því að fara inn á þessa braut, að gera hverja stofnun að fjárhagslega sjálfstæðri einingu, mun hið sama gerast og á einkamarkaðnum. Til þess að verja réttindin og koma í veg fyrir þetta er eina leiðin að mínum dómi sú að búa svo um hnútana að atvinnurekandinn og fyrirtækin verði ekki fyrir neinum skakkaföllum sjálf. Það gerum við með því að við myndum sameiginlegan sjóð sem allir greiða í og síðan fjármagni hann fæðingarorlofið.

Það sem er sérstaklega mikilvægt við þessar breytingar nú, að tryggja feðrum sjálfstætt fæðingarorlof og ég ætla að ljúka mínu máli á þeim nótum, er að þetta er eins og ég gat um áðan ekki aðeins spurning um rétt barnsins og rétt föður og fjölskyldu heldur er þetta líka mikið jafnréttismál. Það er mjög mikið og stórt jafnréttismál að báðir foreldrar sinni börnum sínum. Þetta er jafnréttismál hvernig sem á það er litið í rauninni. Þegar atvinnurekandi stendur frammi fyrir því að ráða karl eða konu, sem hugsanlega er á barneignaraldri, til starfa þá stendur hún ekki jafnfætis karlinum, eins og ég gat um áðan. Ef karlinn hins vegar fær sjálfstætt fæðingarorlof, ég tala nú ekki um ef það yrði til jafns við konuna þegar fram líða stundir, þá er sama áhætta fólgin í því að ráða karlinn og konuna, ef þannig er hægt að orða þetta.

Ég ætla ekki að lengja mitt mál. Ég ætla að lokum að ítreka að mjög mikilvægt er að frá hæstv. fjmrh. komi yfirlýsing þess efnis að réttur feðra hjá hinu opinbera verði rýmkaður til samræmis við það sem verið er að gera á almennum vinnumarkaði. Síðan tek ég undir þær hugmyndir sem fram hafa komið um að taka þurfi á öllum þessum málum --- rétturinn jafnaður en upp á við.